Það er tímabært að endurskoða kerfið sem við búum við í dag. Það þarf að gera á yfirvegaðan hátt enda kerfið búið að vera óbreytt í áratugi og miklar breytingar orðið á námi, vinnumarkaði og starfsvettvangi þeirra sem löggildingu hafa. Huga þarf að því hvort löggilding starfsheita eigi að koma í ríkari mæli í stað löggildingar til starfa. Í því samhengi þarf að tryggja sá sem fær löggildingu starfsheitis rísi undir þeim menntunar og færnikröfum sem gerðar eru og þar með hafi kaupendur þjónustu þeirra tryggingu fyrir að viðkomandi hafi getu og kunnáttu til að leysa viðkomandi verkefni.
Það er til vansa að vísa þurfi jafnmörgum frá iðnnámi og raun ber vitni. Sömuleiðis að þeir sem eldri eru séu nánast útilokaðir frá iðnnámi. Það er hvergi gert annars staðar í framhalds- eða háskólum. Til þess að bregðast við þessum vanda þarf að fjölga nemendaígildum í þessum greinum, bæta húsnæðis- og tækjakost. Marka þarf skýra stefnu um að verk- og tækninám sé jafnsett öðru námi og að þeir sem það stundi séu að mennta sig til mikilvægra starfa sem samfélagið þarfnast.
Átakið Allir vinna hefur tvíþættan tilgang. Örva atvinnustarfsemi og koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi. Lengst af hefur 60% virðisaukaskatts af vinnu fengist endurgreidd. Til að bregðast við samdrætti vegna Covid var hlutfallið hækkað í 100%. Það er vandséð að slíkri örvun þurfi að halda áfram. Það er því skynsamlegt að færa hlutfallið í 60% að nýju við þær aðstæður sem nú eru. Eðlilegt er að skoða að liðnum hæfilegum tíma hvort og þá hvernig eigi að halda áfram með úrræðið Allir vinna.
Mikilvægast er að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum, draga úr gengissveiflum og halda vöxtum samkeppnishæfum. Það verður best gert með því að festa gengi krónunnar við evru með samningi við Seðlabanka Evrópu. Þannig skapast betri grundvöllur til betri áætlanagerðar og langtímahugsunar í framkvæmdum og uppbyggingu á flestum sviðum þar sem iðnmenntaðir starfa.
Já