Samfylkingin er fylgjandi því að úrræðið „Allir vinna” verði framlengt, enda upphaflega komið á þegar flokkurinn var síðast í ríkisstjórn 2009-13. Samfylkingin hefur auk þess talað fyrir því að úrræðið verði útvíkkað þannig að það nái einnig til iðngreina þar sem konur eru í meiri hluta.
Of lengi hafa stjórnvöld á Íslandi látið reka á reiðanum í atvinnumálum. Samfylkingin boðar framsækna atvinnustefnu fyrir Ísland allt. Meginmarkmiðið er að styðja við fjölgun fjölbreyttra atvinnutækifæra um land allt sem bæta lífskjör og hæfa framboði vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði. Nýsköpun er leiðarstefið. Stefnan grundvallast á fjölbreytni og jafnræði milli fyrirtækja og atvinnugreina og felur auk þess í sér græna uppbyggingu og umbyltingu atvinnulífs. Aukin fjölbreytni í atvinnulífi skýtur fleiri og sterkari stoðum undir íslenskt hagkerfi og útflutning, dreifir áhættu, dregur úr sveiflum og eykur stöðugleika. Jafnræði milli fyrirtækja og atvinnugreina spornar gegn því að einstök fyrirtæki eða atvinnugreinar verði allsráðandi á kostnað annarra og eykur þannig líkur á að sprotar í íslensku atvinnulífi fái færi á vaxa og dafna og verða að öflugum undirstöðugreinum í samfélaginu til framtíðar.
Eitt af því sem er er mikilvægt til þess að tryggja endurnýjun innan iðngreina er að koma á fót sjóði sem iðnmeistarar geta sótt í til þess að gera fleirum iðnnemum kleift að komast í starfsþjálfun sem ekki er á færi skólanna að veita. Horfa má til Danmerkur í þessu samhengi en þar í landi er vinnustaðanámssjóður sem greiðir iðnnemum laun á meðan á samningstíma stendur. Hugsunin á bak við sjóðinn er að samfélagið styðji áframhaldandi þróun og endurnýjun á vinnumarkaði. Öll fyrirtæki greiða í sjóðinn í hlutfalli við fjölda starfsmanna óháð starfsgrein, enda munu þau flest njóta góðs af nýsveinum í vinnu á einhverjum tímapunkti. Öll þurfum við einhvernn tíman á iðnaðarmönnum að halda.
Þrátt fyrir að hér sé til staðar vinnustaðanámssjóður að nafninu til, er hann svo vanfjármagnaður að fyrirtæki hafa ekki hag af því að sækja í hann.
Já, á meðan þetta úrræði nýtist ungu fólki til þess að koma sér inn á húsnæðismarkað og til þess að eignamyndun þeirra verður meiri á lífsleiðinni þá er þetta úrræði sem við getum sætt okkur við. En aftur á móti þá er ekki útséð hvaða afleiðingar þetta mun hafa í för með sér fyrir þær kynslóðir sem eru að nýta sér þetta úrræði, á efri árum.
Við ætlum að hafa forystu um grundvallarstefnubreytingu í húsnæðismálum til að skapa heilbrigðan húsnæðismarkað til framtíðar. Við teljum að lausnin felist í stórauknum framlögum til að byggja hagkvæmt húsnæði. Það dregur úr sveiflum og neikvæðum áhrifum á verðlag og vexti. Flokkurinn hefur líka þá stefnu að ganga alla leið í Evrópusambandið og taka upp evru, sem mun gjörbreyta öllu vaxtaumhverfi hér á landi.