Ungt iðnaðarfólk í eldlínunni

Fulltrúar Íslands í ellefu iðngreinum etja nú kappi í Gdansk í Póllandi þar sem Euroskills, Evrópumót iðngreina, fer fram dagana 5.-9. september. Ísland hefur átt fulltrúa í keppninni – sem fer fram annað hvert ár – frá árinu 2007. Aldrei hafa þeir hins vegar verið fleiri.

Ellefu ungir og efnilegir fulltrúar taka þátt í eftirfarandi greinum:

 • Bakaraiðn – Finnur Guðberg Ívarsson, Hótel- og matvælaskólinn
 • Framreiðsla – Finnur Gauti Vilhelmsson, Hótel- og matvælaskólinn
 • Grafísk miðlun – Olivier Piotr Lis, Tækniskólinn
 • Hársnyrtiiðn – Irena Fönn Clemmensen, Verkmenntaskólinn á Akureyri
 • Iðnaðarstýringar – Benedikt Máni Finnsson, Tækniskólinn
 • Kjötiðn – Bríet Berndsen Ingvadóttir, Hótel- og matvælaskólinn
 • Matreiðsla – Hinrik Örn Halldórsson, Hótel- og matvælaskólinn
 • Pípulagnir – Kristófer Daði Kárason, Tækniskólinn
 • Rafeindavirkjun – Hlynur Karlsson, Tækniskólinn
 • Rafvirkjun – Przemyslaw Patryk Slota, Verkmenntaskóli Austurlands
 • Trésmíði – Van Huy Nguyen, Tækniskólinn

„Að taka þátt í Euroskills er mjög mikilvægt fyrir framþróun í iðnaði og ekki síður fyrir iðn -og verknám á Íslandi,“ segir Georg Páll Skúlason, formaður Verkiðnar eða Skills Iceland eins og samtökin heita á alþjóðavettvangi. „Samtökin vinna markvisst með stjórnvöldum og iðnaði til að undirbúa samfélagið undir störf framtíðarinnar. Hvert þátttökuland keppist um að þróa færni sína í hverri grein og þátttaka í Euroskills stuðlar einnig að öflugri starfsþróun þeirra iðn- og verkgreinakennara sem taka þátt í þjálfun okkar efnilegu fulltrúa sem keppa fyrir Íslands hönd,“ segir Georg Páll.