Sambandsstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum þann 15. júní 2023 eftirfarandi ályktanir:
Ályktun um efnahags- og kjaramál
Sambandsstjórn Samiðnar hvetur aðila vinnumarkaðarins og stjórnvöld til að koma böndum á verðbólguna með öllum tiltækum ráðum með raunhæfum aðgerðum. Stöðugleiki, ásamt því að verja aukinn kaupmátt síðustu ára, er sameiginlegt markmið og á ábyrgð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar. Aðgerðir Seðlabanka Íslands í formi vaxtahækkana munu ekki einar ráða niðurlögum vandans og þarf fleira að koma til svo sporna megi við þenslu. Sambandsstjórn Samiðnar hvetur aðila til þjóðarsáttar þar sem allir samningsaðilar komi að borðinu.
Síðustu kjarasamningar voru ábyrgir að mati Samiðnar en miður er að hvorki áætlanir né loforð viðsemjenda eða stjórnvalda gengu eftir. Gjaldskrárhækkanir opinberra aðila skullu á með miklum þunga fljótlega eftir undirritun kjarasamninga 12. desember sl. og gáfu tóninn fyrir aðra að hækka vöru og þjónustu umfram það sem eðlilegt getur talist. Sambandsstjórn Samiðnar lýsir yfir miklum vonbrigðum vegna ábyrgðarleysis hlutaðeigandi, sem fleyttu öllum kjarabótum beint út í verðlagið.
Ályktun um uppbyggingu starfsnáms
Sambandsstjórn Samiðnar fagnar áformum mennta- og barnamálaráðherra frá 2. mars sl. þar sem fram koma áætlanir um stórtæka uppbyggingu starfsnáms. Þær áætlanir gera ráð fyrir viðbyggingu við alla framhaldsskóla sem bjóða upp á iðnnám á næstu fimm til sex árum til að mæta fjölgun þeirra nemenda sem viðbúið er að muni velja verknám á næstu tíu árum.
Kallað er eftir tímasettri verkáætlun með upplýsingum um hvernig verkefnið verði fjármagnað. Ef uppbygging 4000 íbúða á ári næstu 5 árin á að verða að veruleika verður að huga strax að fjölgun nemenda í iðngreinum. Skorað er á stjórnvöld að tryggja öllum þeim sem sækja um iðn- og verknám í vor aðgang að námi.
Ályktun um viðurlög við brotum á iðnaðarlögum/Fagfólk í fagstörf
Sambandsstjórn Samiðnar skorar á stjórnvöld að sett verði viðurlög og/eða sektir við brotum á iðnaðarlögum. Einnig er skorað á stjórnvöld að koma á skilvirku eftirliti sem tekur strax á brotum á Iögum og reglugerðum sem varða löggiltar iðngreinar.
Iðnlöggjöf er skýr varðandi vinnu við mannvirkjagerð en enginn má vinna iðnaðarstörf nema hafa til þess iðnmenntun, sbr 8.gr. laga nr 42/1978. Fjölmargir vinnustaðir eru nær eingöngu mannaðir af starfsmönnum með enga iðnmenntun. Ætla má að þessir starfsmenn þekki ekki byggingarreglugerð, mannvirkjalög né reglulgerðir og staðla sem eiga við um íslensk mannvirki.
Það hefur áhrif á heilbrigði mannvirkja ef ófaglærðir, sem ekki þekkja íslensk lög og reglugerðir vinna störf sem eiga að vera unnin af faglærðum iðnaðarmönnum.
Mannvirki unnin af ófaglærðum uppfylla engan veginn ákvæði laga og reglna um t.d. neytendavernd og þjónustukaup.
Rekja má gríðarlegan kostnað sem fer í viðgerðir á byggingagöllum til vanþekkingar á vinnubrögðum og þekkingaleysis á notkun byggingaefna.