Samiðn 30 ára í dag

Þrjátíu ár eru í dag, þann 8. maí, liðin frá því Samiðn – samband iðnfélaga var stofnað. Samiðn er landssamband fagfólks í iðnaði. Innan vébanda þess eru byggingarmenn, málmiðnaðarmenn, bíliðnaðarmenn, netagerðamenn, garðyrkjumenn og hárgreiðslufólk. Samiðn var stofnað árið 1993 og í sambandinu eru 12 félög og deildir og félagsmenn um 8.000.

Guðfinnur Þór Newman framkvæmdastjóri, Hilmar Þ. Harðarson formaður og aðrir sem að Samiðn koma hafa staðið í ströngu að undanförnu enda hafa kjaraviðræður staðið yfir linnulaust í vetur. Útlit er fyrir að næsti vetur verði einnig annasamur, svo ekki sé fastara að orðið kveðið.

Markmið og hlutverk samiðnar eru skilgreind í lögum sambandsins. Þau eru að:

 a. Sameina innan sinna vébanda stéttarfélög og deildir í viðkomandi starfsgreinum í samræmi við lög þessi og vinna að stækkun félagsheilda í samráði við viðkomandi verkalýðsfélög og ASÍ.
b. Tryggja að allt launafólk í þeim starfsgreinum er tengjast sambandinu, eigi aðild að stéttarfélagi.
c. Stuðla að samræmingu á lögum og reglugerðum aðildarfélaganna.
d. Auka áhrif launafólks á sviði þjóðmála s.s. í kjara-, atvinnu- og menntunarmálum.
e. Sambandið aðstoðar aðildarfélögin með gerð grunnkjarasamnings og sérkjarasamninga og beitir sér fyrir samstöðu þeirra og gagnkvæmum stuðningi.
f. Veita aðildarfélögunum þjónustu og beita sér fyrir auknum og jafnari rétti félagsmanna.
g. Móta stefnu í atvinnumálum með tengslum við fyrirtæki og stofnanir í atvinnulífinu.
h. Auka og efla veg iðn- og starfsmenntunar með virkri aðild og ábyrgð á iðn- og starfsmenntun í skólum, atvinnulífi og með námskeiðum fyrir félagsmenn.
i. Beita sér fyrir bættu vinnuumhverfi í starfsgreinunum og taka virkan þátt í að bæta og vernda ytra umhverfi.
j. Tryggja jafnan rétt félagsmanna til vinnu hvar sem er á landinu.
k. Gangast fyrir almennri upplýsinga- og menningarstarfsemi aðildarfélaganna og aðstoða þau við slíka starfsemi.
l. Taka virkan þátt í starfi innan heildarsamtaka ASÍ, ásamt samstarfi við starfsgreinasambönd á Norðurlöndum, í Evrópu og við Alþjóðasamtök starfsgreinanna.

Félögin í Samiðn eru: