X. Sambandsþing Samiðnar

2. og 3. júní

Á X. þingi Samiðnar sem haldið var 2. og 3. júní sl. var Hilmar Harðarson formaður Félags iðn- og tæknigreina, endurkjörinn formaður Samiðnar til næstu þriggja ára og Jóhann Rúnar Sigurðsson frá Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri, endurkjörinn varaformaður Samiðnar. Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason og forseti ASÍ, Drífa Snædal, ávörpuðu þingið.

Í setningaræðu sinni lagði formaður áherslu á virkt samtal við aðildarfélögin en tveggja ára tímabil heimsfaraldurs hafi hamlað starfseminni að mörgu leyti. Í því skyni er ráðgert að sækja félögin heim á næstu mánuðum og efla enn betur gott samstarf.                                                                

Áherslumál þingsins

Áherslumál þingsins voru fjögur; kjaramál, menntamál, skipulagsmál og lífeyrismál. Fjórir sérfræðingar í málaflokkunum héldu áhugaverð erindi og þingnefndir störfuðu á þinginu í þremur fyrstu málunum. Kjaramálin og menntamálin fengu sérstaka athygli enda margt sem kemur þar til. Næsta vetur renna kjarasamningar sitt skeið á enda en undirbúningsvinna er þegar hafin og heldur hún áfram með enn meiri krafti í haust, en kjaramálaráðstefna Samiðnar verður haldin í september. Þar munu aðildarfélög Samiðnar koma saman til fundar og móta stefnu og sýn fyrir komandi kjaraviðræður, með sameiginlegri kröfugerð. Að sama skapi eru margar áskoranir vegna menntamála.

Ályktanir

 Í ályktun um efnahags- og kjaramál var lögð áhersla á efnahagslegan stöðugleika í íslensku samfélagi en án hans verður ekki hægt að tryggja jákvæðan kaupmátt en aukning kaupmáttar til langs tíma verður að byggja á verðstöðugleika. Einnig var lögð mikil áhersla á hlutfallshækkanir launa.  Félagslegt undirboð gagnvart erlendu vinnuafli er ólíðandi og mikilvægt að skerpa löggjöfina og beita viðurlögum við launaþjófnaði. Kjör og aðbúnaður þarf að vera samkeppnisfær svo hægt sé að tryggja aðgang að vel menntuðu starfsfólki.

Í ályktun um menntamál var lýst yfir áhyggjum af aðgengi til menntunar í iðnaðarstörfum en það skýtur skökku við að á sama tíma og mikil vöntun er á iðnaðarmönnum er miklum fjölda ungmenna vísað frá skólum eða í aðra menntun. Jafnframt var samþykkt að hefja vinnu við að efla ímynd iðnaðarmanna, gera átak í að kynna iðnnám enn betur fyrir grunnskólanemendum og semja við stjórnvöld um að styrkja fjárhagslega stöðu iðnnáms enn frekar. Þá var einnig samþykkt að setja á stofn verkefnahóp Samiðnar sem hafi það hlutverk að þrýsta á stjórnvöld að sett verði viðurlög, og eða sektir, vegna brota á iðnlöggjöfinni. Einnig er skorað á stjórnvöld að koma á skilvirku vinnustaðaeftirliti.

Varðandi skipulagsmálin þá samþykkti þing Samiðnar að fimm manna skipulagsnefnd verði kosin til þess að endurskoða skipulag og starfshætti Samiðnar og leggja tillögur fyrir sambandsstjórn. Hvert aðildarfélag sem ekki á fulltrúa í áðurnefndri fimm manna nefnd skal tilnefna einn fulltrúa í bakhóp sem á að tryggja virkt samtal milli nefndar og aðildarfélaga.