Guðfinnur Þór Newman hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samiðnar.
Guðfinnur er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands, með áherslu á fjármál og endurskoðun. Hann hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfamiðlum frá Háskólanum í Reykjavík. Guðfinnur hefur yfir 20 ára reynslu af vinnumarkaðsmálum, undirbúningi og gerð kjarasamninga, tölfræðigreiningum ásamt því að aðstoða félagsmenn.
Síðastliðin fjögur ár hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) sem er þriðja stærsta félag innan Bandalags háskólamanna (BHM) en fyrir það starfaði hann m.a. hjá Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Hjá Samiðn mun Guðfinnur bera ábyrgð á rekstri og starfsemi sambandsins og sinna samskiptum og samstarfi við aðildarfélög og samstarfsaðila innan lands sem utan, auk samskipta við aðila vinnumarkaðarins.
Guðfinnur hóf störf 1. mars sl.