Kapp er best með forsjá

Nýverið gaf Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) út skýrslu sem unnin var að beiðni atvinnu- og nýsköpunarráðherra sem hefur fengið töluverða athygli. Um er að ræða yfirgripsmikla skýrslu sem felur í sér margvíslegar tillögur, en markmið skýrslunnar var að gera úttekt á samkeppnismati á regluverki íslensks byggingariðnaðar og íslenskri ferðaþjónustu. Þar komu fram margvíslegar áhugaverðar tillögur sem vert er að fara betur yfir og fela m.a. í sér að einfalda ferlið við veitingu byggingaleyfa og endurskoða ferli og reglur sem gilda um úthlutun lóða til að skýra ferlið og auka framboð lóða í samræmi við eftirspurn.
Í umræddri skýrslu var þó einnig vikið að löggiltum starfsgreinum og þar voru lagðar til nokkrar breytingar. Þar var m.a. tekið fram að yfirgripsmikil lögverndun geti haft í för með sér hærra verð til neytenda, lægri framleiðni og færri störf. Þrátt fyrir að hér séu almennar vangaveltur um hvaða afleiðingar lögvernduna starfsgreina hefur í för með sér, var ekki vikið að því hvort gæði vöru og þjónustu yrðu lakari, hvort að öryggi neytenda yrði stefnt í hættu og hver yrðu áhrifin á kjör þeirra sem eru faglærðir iðnaðarmenn? Staðan er því sú að á sama tíma og mennta- og menningarmálaráðherra er að hvetja til aukins iðn- og verknáms, þá er atvinnu- og nýsköpunarráðherra, að kynna skýrslu sem inniheldur tillögur sem fela í sér verulega gjaldfellingu á iðn- og verknámi.
Nú sem aldrei fyrr skiptir öllu máli að við séum samstíga fram á veginn og grípum þau tækifæri sem aukin áhersla á iðnám hefur á íslenska velferð. Leið okkar að aukinni hagsæld snýr að því að nýta okkur þann kraft sem býr í íslensku samfélagi og leysa úr læðingi þá færni sem býr í höndum okkar.