Betur má ef duga skal

Hagfræðideild Landsbanka Íslands var að birta upplýsingar um að verulega hefði hægt á íbúðauppbyggingu samkvæmt VSK-skýrslum fyrir uppgjörstímabilið júlí til ágúst. Landsbankinn bendir á að frá lokum síðasta árs hefur mælst samdráttur í byggingariðnaði og hefur hann aukist eftir að Covid-19 faraldurinn skall á. Að samdrátturinn sé þó minni í sérhæfðari byggingarstarfsemi en í þróun og byggingu húsnæðis. Telur bankinn að það gæti verið sökum þess að margt af því húsnæði sem er í byggingu núna, er komið á síðari byggingarstig og vinna við frágang því orðin fyrirferðarmeiri.

Þegar fyrirséð var að áhrif Cov-19 yrðu mikil á íslenskt samfélag boðaði ríkisstjórnin opinbert fjárfestingarátak. Hins vegar er staðan sú að fjárfestingar ríkissjóðs og sveitarfélaganna hafi ekki aukist í takt við þær yfirlýsingar. Samiðn ítrekar áskorun sína til stjórnvalda að standa við orð sín og auki verulega umsvif sína í opinberum framkvæmdum sem allra fyrst.