Betur má ef duga skal

Í síðustu viku vakti Hagfræðideild Landsbankans athygli á því að fjárfestingartölur hins opinbera eru í ekki samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda. Þar kemur m.a. fram að fjárfesting ríkissjóðs hafi minnkað um 17,1% milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 og fjárfesting sveitarfélaganna um 9%.

Eru þetta mikil vonbrigði enda hafa stjórnvöld marglýst því yfir að gefa eigi verulega í hvað varðar fjárfestingar hjá hinu opinbera á þessum erfiðu tímum sem nú ganga yfir land og þjóð.

Er það mat Samiðnar að auka þurfi verulega fjárfestingar hjá hinu opinbera og að mikilvægt er að stjórnvöld standi við þau fyrirheit sín. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að stjórnvöld snúi vörn í sókn og grípi til frekari aðgerða hvað opinberar framkvæmdir varðar.