Stjórnvöld hraði innviðauppbyggingu

Miðstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum 30. mars eftirfarandi ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til atvinnuskapandi verkefna svo mæta megi þeirri ágjöf sem gengur yfir atvinnulífið:

„Á tímum samdráttar er mikilvægt að stjórnvöld horfi til verkefna sem stuðla að atvinnusköpun sem flestra. Ljóst er að mörg verkefni koma þar til greina, bæði á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar. Nú er uppi fordæmalaust ástand í samfélaginu með mikilli ágjöf á atvinnulífið og nauðsynlegt að stjórnvöld bregðist hratt við. Hagvaxtahorfur hafa versnað til muna og telur Samiðn mikilvægt að framkvæmdir hefjist þegar í stað. Verulega hefur skort á viðhaldsframkvæmdir hjá hinu opinbera síðustu misserin og nú er lag að bregðast við uppsafnaðri þörf þar. Brýnt er að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því að greiðslur úr ríkissjóði skili mikilvægum virðisaukandi verkefnum til samfélagsins. Það er á svona tímum sem reynir á stjórnvöld að styðja við af fullu afli og ljóst er að enginn hörgull er af verðugum verkefnum sem ráðast þarf í.

Samiðn skorar því á stjórnvöld að hraða innviðauppbyggingu og setja í gang mannaflsfrekar framkvæmdir eins fljótt og frekast er unnt.

Loks vill Samiðn fagna þeim tillögum sem eru fyrirliggjandi varðandi endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað íbúðar- og frístundarhúsnæðis, sem og viðhalds ökutækja. Þessar tillögur eru atvinnuskapandi og mikilvægar á þeim tímum sem framundan eru. Að sama skapi telur Samiðn mikilvægt að umrædd endurgreiðsla á virðisaukaskatti taki einnig til framkvæmda á vegum sveitarfélaga.“