Nú eru sumarfrí að baki og starfsemin að komast í gang m.a. gerð kjarasamninga við ríki, sveitarfélög, tengd fyrirtæki og stofnanir. Við frestuðum kjaraviðræðum í lok júní með samkomulagi um breytingu á viðræðuáætlunum og innágreiðslu.
Viðræður eru hafnar að nýju við Reykjavíkurborg og fundir verða með ríki og sveitarfélögum í þessari viku. Hins vegar er því ekki að neita að það er mikill hægagangur í viðræðunum og því erfitt að spá um framhaldið.
Nýjustu fréttir af miklum hækkunum forstjóra ríkisstofnana og fyrirtækja hafa hleypt illu blóði í viðræðurnar og ljóst að þær munu trufla samtölin. Einnig er SGS með mál fyrir Félagsdómi sem snertir viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Bæði ríki og sveitarfélögin leggja áherslu á samræmda niðurstöðu t.d. varðandi vinnutímastyttingu og launahækkanir, sem þýðir að aðilar eins og Samiðn eiga erfitt með að ljúka samningum nema að fyrir liggi niðurstaða í þessum stóru málum.
Iðnaðarmannasamfélagið leggur áherslu á að ná samkomulagi um raunstyttingu vinnuvikunnar og laun félagsmanna, sem eru að störfum hjá ríkinu og sveitarfélögum, nálgist laun fyrir sambærileg störf á almennum vinnumarkaði.
Í kjarasamningi SA og iðnfélaganna sem undirritaðir voru s.l. vor eru tvö atriði sem samkomulag er að vinna með á samningstímanum og skipta okkur miklu máli. Í fyrsta lagi er að nefna útfærslu á vinnutímastyttingunni og í öðru lagi útfærslan á fyrirtækjaþætti samninga. Náist samkomulag um útfærslu er gert ráð fyrir að innleiðingin geti hafist á nýju ári.
Við erum að vona að okkur takist að koma þessum verkefnum í gang á næstu vikum og niðurstaðan í þeirri vinnu liggi fyrir um næstu áramót og innleiðing geti hafist í beinu framhaldi.