Samiðn – Samband iðnfélaga, Rafiðnaðarsamband Íslands, Félag iðn- og tæknigreina, Byggiðn – Félag byggingamanna, MATVÍS og GRAFÍA stéttarfélag hafa ákveðið að vinna náið saman að baráttumálum iðnaðarmanna.
Því eru þessi félög að flytja í eitt hús á Stórhöfða 31. Markmiðið með því að vera saman í húsnæði er að samþætta starfsemi félaganna með bættri þjónustu til hagsbóta fyrir félagsmenn sína.
Okkur vantar heiti á húsið eða „samstarfið“. Því leitum við til félagsmanna þessara félaga um hugmyndir. Heitið þarf að vera lýsandi, félögin eiga að geta notað það á sameiginlega viðburði og geta kennt sig við að vera eitt af þessum félögum.
Frestur til að skila inn tillögum er til 14. júní 2019. Tillögum skal skilað til Samiðnar merkt „nafn“ í umslagi þar sem nafn höfundar er í lokuðu umslagi með tillögunni. Einnig er hægt að senda tillögur í tölvupósti á sigrun@rafis.is Nafni höfundar verður haldið leyndu fyrir dómnefnd.
Verðlaun að upphæð kr. 100.000,- verða veitt fyrir tillöguna sem verður valin. Dómnefnd mun fara yfir tillögur og velja eina úr. Dómnefnd áskilur sér rétt að hafna öllum tillögum.