Að baki er viðburðarrík vika. VR-LÍV- SGS-Efling og þau stéttarfélög sem voru í samfloti við þau, gengu frá kjarasamningi og ríkisstjórnin lagði fram aðgerðarpakka með 38 atriðum undir heitinu „Stuðningur ríkisstjórnarinnar við lífskjarasamning“.
Full ástæða er til að óska þeim til hamingju sem eiga aðild að þessum nýja kjarasamningi því í honum er margt áhugavert og hluti hans eru efnisatriði sem iðnaðarmannasamfélagið kom að og útfærði.
Allar launahækkanir eru í formi krónutölu og ganga þær upp allan launastigann þannig er 500.000 kr. maðurinn að fá sömu launahækkun og sá sem er með 350.000 kr. Hlutfallslega er hækkunin minni hjá þeim sem eru hærra launaðir. Launahækkun er meiri til þeirra sem taka laun samkvæmt kauptöxtum sem er jákvætt. Einnig er rétt að nefna að í samningum er gert ráð fyrir launaþróunartryggingu sem er hliðstæð því sem hefur verið í gildi hjá því opinbera og gefist vel.
Umhugsunarvert er að í samningi sem hefur fengið heitið „lífskjarasamningur“, fylgir skjal frá ríkisstjórn upp á 38 liði og snertir alla þjóðina, að ekki hafi verið reynt að tryggja víðtækari aðild og sátt. Þegar þjóðarsáttasamningurinn var gerður var lögð áhersla á víðtæka aðkomu.
Þeir sem ekki áttu kost á aðild og eiga eftir að semja er stillt upp fyrir einum kosti „copy“. Heppilegra hefði verið að leggja meiri vinnu í að búa til víðtæka sátt um samning sem snertir alla með einum eða öðrum hætti og gildir í tæp fjögur ár.
Iðnaðarmannasamfélagið átti ekki aðild að samningunum og því er samningum við SA ólokið. Haldinn var fundur undir stjórn sáttasemjara í gær en sá fundur fór eingöngu í kynningu á nýgerðum kjarasamningum og aðgerðum stjórnvalda.
Á fundinum kom fram að SA gerir ráð fyrir að nýgerðir kjarasamningar verði rammi að öðrum kjarasamningum.
Á fundinum var ekkert ákveðið en næsti fundur verður n.k. miðvikudag og þá má gera ráð fyrir að samningaviðræður fari aftur í gang en segja má að þær hafi meira og minna legið niðri s.l. tvær vikur.
Niðurstaðan er að er ekki komin á kjarasamningur milli SA og iðnaðarmannasamfélagsins og hvernig þau mál þróast veit engin.