Á okkar vettvangi hafa ekki átt sér stað neinar formlegar kjarasamningsviðræður við SA í vikunni, en eins kunnugt er var viðræðunum slitið fyrir tæpum tveimur vikum síðan. Sáttasemjari hefur boðað iðnaðarmannafélögin á fund n.k. mánudag og þá verður staðan endurmetin.
Það sem hefur gerst og mun væntanlega hafa áhrif á gang mála er að VR, Efling og þau félög sem eru í samfloti með þeim eru komin aftur að samningaborðinu.
Þær fréttir berast að málin séu að skýrast og það sé sterkur vilji hjá báðum aðilum að gera alvöru tilraun til að ná samningum.
Takist þeim að fá hjólin til að snúast eru vaxandi líkur á að fleiri komi að samningaborðinu því það verður segjast eins og er að þeir aðilar sem sátu við samningaborðið í febrúar og byrjun mars, voru komnir vel áleiðis með samning án þess að hægt sé að segja að samningur lægi á borðinu.
Helgin sem er framundan getur því orðið vendipunktur í þessum kjarasamningaviðræðum.
Það er orðið mjög brýnt að koma því á hreint hvort hægt sá að ljúka samningum eða hvort við þurfum að grípa til aðgerða til að knýja á um niðurstöðu.
Þessi óvissa sem staðið hefur mánuðum saman er farin að hafa neikvæð áhrif og mikilvægt að henni ljúki sem fyrst svo hægt sé að fara að vinna samkvæmt þeirri niðurstöðu sem fæst.
Aðgerðahópur iðnaðarmannafélaganna er að störfum og hans fyrsta verk er að planleggja hugsanlegar aðgerðir. Hópurinn er að meta hvaða vinnustaðir og starfshópar innan okkar raða myndu hafa mest áhrif ef til verkfalla kæmi. Matið liggur ekki fyrir en málin munu skýrast á næstu dögum. Það er mikilvægt að hvert aðildarfélag taki þessa umræðu og komi með ábendingar til aðgerðarhópsins.
Allir eru sammála um að óbreytt ástand getur ekki varað mikið lengur, óbreytt ástand hlýtur að kalla á að við endurmetum vinnulagið og stillum okkur saman til að knýja á um viðunandi lausn.
Rétt er að halda því til haga að Samiðn og Rafiðnaðarsambandið áttu í gær fund með Reykjavíkurborg þar sem áherslur sambandanna voru kynntar. Við gerum ráð fyrir að ljúka vinnu við kröfugerð á hendur sveitarfélögum og ríki í næstu viku og í framhaldi verði þær kynntar.