Vikan sem senn er að baki verður kannski ekki skráð sem vikan þegar stóru tíðindin bárust af viðræðum um endurnýjun kjarasamninga. En viðræðum hefur verið haldið áfram.
Að stytta vinnuvikuna án skerðingar á launum og gera samhliða ráðstafanir til þess að tekjur fyrir dagvinnu dugi til góðrar afkomu, og innan ekki langs tíma verði yfirvinna frekar undantekning en meginregla, er verkefni sem kallar á mikla yfirlegu og vandaðar útfærslur.
Við erum að vinna með það yfirmarkmið að stytta vinnuvikuna og semja um góð laun. Til að dregið verði úr yfirvinnu verður fólk að vera sæmilega sátt við það sem það ber úr bítum fyrir dagvinnuna. Það er löng hefð á íslenskum vinnumarkaði að vinna yfirvinnu og því þarf að breyta. Það er hins vegar ljóst að við breytum ekki gömlum hefðum á einum degi en það er sameiginlegur vilji að hefja vegferðina að þessu markmiði.
Iðnaðarmannasamfélagið hefur lagt mikla áherslu á að tekið sé á brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði sem snýr að erlendum starfsmönnum, kennitöluflakki og svartri atvinnustarfsemi.
Í gær skilaði starfshópur tillögum til félagsmálaráðherra um úrræði til að vinna gegn brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Þessu ber að fagna og við fyrstu sýn lofa þær góðu. Ekki hefur gefist tími til að rýna tillögurnar en megin markmið þeirra er að regluverk á vinnumarkaði verði skilvirkt og þær aðgerðir sem ráðist verði í skili tilætluðum árangri.
Unnið hefur verið í málum sem snúa að stjórnvöldum og má þar nefna skattamál og húsnæðismál sem við gerðum góð skil í síðasta pistli.
Í þessari viku hafa málefni sem snúa að almannatryggingum þ.á.m tekjutengingar fengið framgang og ættu tillögur þar að lútandi að geta farið til stjórnvalda á næstu dögum.
Iðnaðarmannasamfélagið hefur lagt mikla áherslu á að dregið verði úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum. Einnig að tryggt verði jafnræði gagnvart almannatryggingum hvort sem lífeyrisþegi er að fá lífeyri úr samtyggingu eða séreign ef hún er tilkomin vegna skylduiðgjalds.
Það eru fleiri mál sem við viljum taka upp gagnvart stjórnvöldum sem snúa að lífeyrismálum t.d hefur iðnaðarmannasamfélagið lagt til að heimilað verði að nota megi tilgreinda séreign í afmarkaðan tíma til fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði.
Við munum halda áfram að funda á næstu dögum og vonandi verður frá fleiru að segja í næsta pósti. Við vonum að allir eigi framundan góða helgi og ef félagsmenn hafa fyrirspurnir eða innlegg til samningamanna, verður slíku tekið fagnandi og má senda á thorbjorn@samidn.is