Hugmyndir um styttingu vinnuvikunnar farnar að skýrast

Í vikunni hafa viðræður Samtaka atvinnulífsins og iðnaðarmannasamfélagsins um styttingu vinnuvikunnar haldið áfram og er sú umræða farin að taka á sig nokkuð skýra mynd og ekki ósennilegt að hægt verði að landa því. Hafin er umræða um launakerfið og svigrúm til launahækkana en engin formleg tillaga liggur fyrir.

Unnið er í smærri hópum en stóra samninganefndin mun hitta SA á mánudag og þá má vænta þess að málin skýrist frekar.

Húsnæðishópur ríkisstjórnarinnar mun gera grein fyrir sínum tillögum í dag og vonandi verða þær gott innlegg í viðræðurnar.

Þess má vænta að viðræður við ríkisstjórnina um skattamál og önnur mál sem að henni snúa komist í formlegt ferli á næstu dögum.

Á þessu stigi er þó engin leið að segja til um hvert þessar viðræður munu þróast og hvort hægt verði að ná samkomulagi um nýjan kjarasamning.

Iðnaðarmenn leggja áherslu á að nýr kjarasamningur gildi frá áramótum og hefur SA tekið undir það með ákveðnum fyrirvara.

Iðnaðarmenn leggja áherslu á að vinna hratt og vel þannig að hægt verði að leggja faglegt mat á það hvort samningar náist á næstu vikum.