Við segjum takk fyrir gott ár sem er að kveðja

Kæru félagar enn á ný er komið að ármótum og framundan er nýtt ár með nýjum tækifærum.
Þegar horft er yfir árið sem er að kveðja þá er hægt segja að heilt yfir hafi það verið okkur Íslendingum hagfellt. Kaupmáttur launa hefur farið vaxandi og atvinnuleysi hefur verið lítið.
Nú stöndum við á tímamótum því margt bendir til að sú mikla hagsveifla sem við höfum notið sl. þrjú til fjögur ár sé að dragast saman og nálgast það sem þekkist hjá okkar nágranna þjóðum. Þessi nýja staða þarf ekki að boða einhver endalok heldur getur falist í henni ný tækifæri ef vel er á haldið.
Verkefni þeirra sem bera ábyrgð á gerð nýrra kjarasamninga er að tryggja þann góða árangur sem náðst hefur á síðustu árum og skapa forsendur fyrir að kaupmáttur geti haldið áfram að vaxa á næstu árum.
Kaupmáttur almennings byggist ekki eingöngu á því sem kemur upp úr launaumslaginu heldur hvað er hægt að fá fyrir það. Margvísleg félagsleg þjónusta sem almenningur þarf á að halda s.s. heilbrigðisþjónusta, menntun, leikskólar, samgöngur og húsnæðismál hafa mikil áhrif á kaupgetuna.
Komandi kjarasamningar munu því ekki eingöngu snúast um krónur heldur um heildarmyndina.
Strax á nýju ári mun verða látið reyna á hvort forsenda er fyrir að ná kjarasamningum sem tryggja aukinn kaupmátt og endurreisn félagslega kerfisins.
Við skulum öll vera undir það búin að það þurfi að grípa til aðgerða til að ná ásættanlegum árangri, en þær verða hafa það að markmiði að knýja fram árangur til að bæta lífskjörin en ekki bara til að fara í aðgerðir.
Það er gotta að hafa í huga orð félaganna Dalai Lama og Desmond Tutu í bókinni „Um gleðina“
„Engin myrk örlög ákvarða framtíðina. Við gerum það. Á hverjum degi og sérhverju andartaki getum við skapað tilveru okkar og gæði mannlífsins á hnettinum okkar. Sá er mátturinn okkar“
Með þessum fleygu orðum þessara tveggja félaga segjum við takk fyrir árið sem er að líða og við hlökkum til samstarfsins á nýju ári.