Dagskrá 1. maí – Sterkari saman

Verkalýðshreyfingin á Íslandi varð til í lok 19. aldar þegar verkafólk hóf að skipuleggja sig í stéttarfélög. Það áttaði sig á aflinu sem bjó í fjöldanum og samstöðunni og gerði hvað það gat til að virkja það afl. Frá þeim tíma hefur sameinuð verkalýðshreyfing barist fyrir réttindum og kjörum launafólks á Íslandi með þeim árangri að óvíða í heiminum er staða fólks á vinnumarkaði sterkari en hér. Þar leikur samstaðan lykilhlutverk.
Nú horfum við hins vegar upp á vaxandi misskiptingu tekna og auðs í samfélaginu. Alþingismenn, embættismenn ríkisins og stjórnendur fyrirtækja taka launahækkanir langt umfram venjulegt launafólk og skattar eru lækkaðir á stóreignafólk. Á sama tíma taka stjórnvöld kaupmáttaraukninguna frá hinum lægst launuðu með skattahækkunum og skerðingu bóta.
Það er verk að vinna fyrir samhenta og samstæða verkalýðshreyfingu. Við erum fámenn þjóð í gjöfulu landi og það verður að skipta gæðunum af sanngirni. Við höfum vopnin og við höfum aflið ef við stöndum saman.
Eftir harðvítugt sex vikna verkfall árið 1955 náðist sigur á ýmsum sviðum verkalýðsbaráttunnar og atvinnuleysistryggingum var komið á. Þá var skrifað stóru letri á forsíðu Vinnunnar, blaðs ASÍ:
„Sterk og sameinuð verkalýðssamtök höfðu varið rétt sinn með sæmd ok komu heil hildi frá.“

Samiðn skorar á félagsmenn sína og launafólk um land allt að taka þátt í hátíðarhöldum dagsins og sýna samstöðu í baráttunni fyrir bættum kjörum.


Dagskrá 1. maí hátíðarhaldanna í Reykjavík verður sem hér segir:

Safnast saman á horni Laugavegar og Snorrabrautar klukkan 13:00
Kröfugangan hefst kl. 13:30
Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika í göngunni
Útifundur á Ingólfstorgi settur klukkan 14:10
Dagskrá:
Síðan skein sól
Ræða: Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Ræða: Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM
Heimilistónar
Samsöngur– Maístjarnan og Internasjónalinn
Fundarstjóri: Þórarinn Eyfjörð
Öll dagskráin verður táknmálstúlkuð og Kolbrún Völkudóttir mun syngja á táknmáli í tónlistaratriðum.

Hátíðarkaffi Byggiðnar og FIT verður á Grand hóteli við Sigtún að göngu lokinni – sjá nánar.