Martin Luther King átti sér draum

Á þessum degi fyrir 40 árum var Martin Luther King skotinn til bana vegna baráttu hans fyrir jöfnum tækifærum allra. Hann átti sér draum um samfélag þar sem þeldökkir og hvítir menn væru algjörlega jafnir og deildu saman gæðum samfélagsins. Hann gerði sér grein fyrir að það tæki tíma að ná því takmarki. Ekki er ósennilegt ef hann væri meðal okkar í dag að þá væri hann ósáttur við árangurinn. En af hverju ættum við Íslendingar að minnast á Martin Luther, á hans barátta eitthvað erindi við okkur Íslendinga í dag. Martin Luther barðist fyrir jöfnum tækifærum til handa öllum ekki bara hvítra og þeldökkra.

Ójöfnuður fer vaxandi í heiminum, þeir ríku verða ríkari og sá hluti gæðanna sem fellur í hlut fjöldans minnkar stöðugt. Þetta á við hér á Íslandi eins og annarsstaðar í heiminum.

Ísland er að breytast í alþjóðlegt samfélag og þeim sem ekki eiga íslenskan uppruna fjölgar stöðugt. Allar rannsóknir staðfesta að fólk af erlendum uppruna getur ekki nýtt sér sömu tækifæri og við hin.

Sífellt fjölgar eldra fólki sem verður að lifa við þröngan fjárhag og takmörkuð lífsgæði. Sama má segja um öryrkja ekki síst þá sem aldrei hafa átt tækifæri á að fara út á vinnumarkaðinn.

Býsna stór hópur barna býr við fátækt og fer á mis við margvísleg gæði sem við teljum sjálfsögð.

Þegar við minnumst Martin Luthers í dag er gott að hugsa inn á við og horfa gagnrýnum augum á okkar litla samfélag. Leggja mat á hvernig hefur okkur tekist að skapa öllum jöfn tækifæri og ekki síst hvernig getum við gert betur og tryggt að sameiginlegum gæðum sé deilt með meiri sanngirni en gert í dag.