Framundan er langt og kærkomið frí eftir langan vetur. Vetur sem hefur verið nokkuð róstugur ekki síst innan verklýðshreyfingarinnar. Í hreyfingu sem er jafn fjölmenn og íslenska verkalýðshreyfingin er eðlilegt menn hafi skiptar skoðanir um áherslur og leiðir. Frjó og kröftug umræða er nauðsynleg til að skapa þann kraft sem nauðsynlegur er fyrir framsækna hreyfingu.
Veikleiki umræðunnar innan verkalýðshreyfingarinnar er að hún er of bundin við persónur en ekki málefni. Það er ekki augljóst hver málefnaágreiningurinn er eða hvort hann er yfirleitt til staðar. T.d. hefur verið nefnt að ASÍ sé á móti þrepaskiptu skattkerfi þrátt fyrir þá staðreynd að það hafi verið vegna þrýstings frá ASÍ að hér var innleitt þrepaskipt skattkerfi í kjölfar bankahrunsins sem var síðan afnumið af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs.
Húsnæðismál hafa verið nefnd sem ágreiningsmál þrátt fyrir þá staðreynd að BSRB og ASÍ hafa unnið baki brotnu að því að hrinda í framkvæmd einu mesta átaki í byggingu húsnæðis fyrir tekjuminni hópa frá því að stjórnvöld lögðu niður verkamannabústaðakerfið.
Verðtrygging lána hefur verið dregin inn í þessa umræðu og reynt að gera ágreining um hana. Það er engin ágreiningur um að fólk eigi að hafa val um verðtryggð- eða óverðtryggð lán.
Vaxtastigið í landinu hefur einnig verið nefnt en það er engin ágreiningur um að það beri að lækka vexti af neytendalánum. Krafa hreyfingarinnar er að vaxtastig á Íslandi eigi að vera sambærilegt og í okkar nágrannalöndum. Spurningin er hvernig ætlar verkalýðshreyfingin að semja um vaxtastigið? Hér ráðast vextir að miklu leyti af markaaðstæðum en ekki samningum milli launamanna og atvinnurekenda. Það sem þarf að gera er að skilgreina hvað veldur því að vextir eru hærri á Íslandi en í okkar nágrannalöndum. Þegar það liggur fyrir er hægt að ráðast í aðgerðir til að ná niður vöxtunum.
Við eru öll ósátt við vaxandi ójöfnuð og sjálftöku þeirra sem eru í efstu lögum samfélagsins. Til að takast á við þá óhuggnarlegu staðreynd að auður heimsins safnist á færri og færri hendur, þarf öfluga hreyfingu og kraft fjöldans.
Þetta er engin endanleg samantekt á því sem haldið er fram að okkur greini á, og auðvitað er margt fleira sem við höfum mismunandi sýn á. Staðreyndin er að það er mun fleira sem við eigum sameiginlegt en aðskilur.
Umræðan í verkalýðshreyfingunni er áhugaverð en það er hins vegar mikilvægt að skilja á milli málefna og afstöðu til einstakra persóna. Ef umræðan snýst fyrst og fremst um persónur miðar okkar ekki mikið áfram í að bæta lífskjör almennings.
Menn koma og fara en baráttan um skiptingu brauðsins verður áfram til staðar. Við megum aldrei missa sýn á hvert hlutverk okkar er og fyrir hverja við erum að berjast. Okkar hlutverk er að bæta lífskjör hins almenna Íslendings.
Gleðilega páska