Um niðurstöðu kosningar hjá Eflingu

Nú liggja fyrir niðurstöður í kosningu til stjórnar Eflingar og er niðurstaðan afdráttarlaus B-listinn hlaut afgerandi kosningu.

Þessi niðurstaða hlýtur að kalla á að fólk innan stéttarfélaganna setjist niður og endurmeti hlutina. Það er ekki hægt að túlka þessa niðurstöðu með öðrum hætti en að grasrótin sé að kalla á breytt vinnubrögð.

Spurningar blasa við. Getur verið að forysta félaganna hafi verið of upptekin við að byggja upp stofnanaþáttinn á kostnað samtalsins innan félaganna og hlustunar? Í einhverjum fræðum stendur að í daglegu starf leiðtogans felist 2/3 í að hlusta og 1/3 að tala.

Stéttarfélögin eiga að taka niðurstöðu kosningarinnar í Eflingu alvarlega. Hún hefur víðtæka þýðingu fyrir verkalýðshreyfinguna í heild.

Nú er mikilvægt að fara ekki í skotgrafirnar heldur nota niðurstöðuna sem vegvísi að nýrri nálgun. Það er þing ASÍ í haust. Þá gefst gott tækifæri til að taka umræðuna um framtíð stéttarfélaganna, starfshætti og áherslur. Við eigum að nota það tækifæri sem þar gefst til að endurhlaða okkur og styrkja samstöðuna á nýjum grunni.

Efling er áhrifamikið félag sem skiptir okkur öll máli. Um leið Samiðn óskar nýjum formanni Eflingar til hamingju með kjörið setjum við fram þá ósk að áfram verði Efling í fararbroddi íslenskra stéttarfélaga í því mikilvæga verkefni að gera gott samfélag betra.