Náttúruvernd og auðlindanýting í þágu almennings

Miðstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum 15. febrúar sl. eftirfarandi ályktun um nýtingu orkuauðlinda og náttúruvernd:

„Við mat á virkjunarkostum við framleiðslu á rafmagni og við aðra uppbyggingu sem felur í sér rask á náttúru er nauðsynlegt að þarfir nærsamfélagsins, umfram aðrar þarfir, séu ætíð hafðar sem mest í forgrunni.  Sterkir innviðir eru forsenda fyrir framþróun sveitarfélaga og byggð í landinu. Í því felst m.a að aðgangur að rafmagni sé tryggur, auk góðra samgangna.  Til að minni samfélög geti staðist samkeppni um fólk og boðið upp á sambærileg tækifæri og þau stærri verða þau að geta treyst á þessar grunnstoðir nútímasamfélags.  Víða á Íslandi skortir verulega á að skilyrði um orkuöryggi og öryggi í samgöngum séu uppfyllt.  Vernd náttúrunnar og virðing fyrir umhverfinu á að vera grundvallaratriði þegar kemur að mannvirkjagerð og auðlindanýtingu. Það er hins vegar áríðandi að þörfum nærsamfélagsins sé ekki stillt upp sem andstæðu við náttúruvernd.  Með vönduðum undirbúningi og skilvirku samráði við almenning er í langflestum tilvikum hægt að finna lausnir þar sem vernd náttúru og hófstillt nýting lands og auðlinda í þágu byggðanna fer vel saman.“