Eyðum misrétti í byggingariðnaði

Að undanförnu hefur Samiðn heimsótt fyrirtæki í byggingariðnaði og kannað hvort erlent starfsfólk sé ráðið til vinnu á viðunandi kjörum, hver menntun þess er og hver aðbúnaður þess er. Það má ekki líðast að fyrirtæki ráði til sín erlenda starfskrafta, oft í gegnum starfsmannaleigur, á lúsarlaunum og að þeim sé jafnvel boðið upp á aðbúnað sem ekki telst með nokkru móti viðunandi.
Sem betur fer höfum við orðið þess áskynja í heimsóknum okkar að flest fyrirtæki virða réttindi þessa starfsfólks. En þó svo að sú mynd sem birtist í vinnustaðaheimsóknum sé að flestu leyti ánægjuleg, eru því miður til slæm dæmi um hið gagnstæða, þar sem réttindi erlendra starfsmanna eru þverbrotin. Við hjá Samiðn viljum skapa breiða samstöðu um að útrýma að fullu slíku háttalagi fárra aðila. 

Spurningar vakna

Áleitnar spurningar hafa vaknað í kjölfar heimsókna Samiðnar. Ljóst er til að mynda að erlent starfsfólk er í langflestum tilvikum skráð sem ófaglært verkafólk og nýtur launakjara í samræmi við það. Ef þessar skráningar eru réttar er ljóst að heilu stórhýsin eru reist hér á landi um þessar mundir án þess að faglærðir iðnaðarmenn komi að því verki, nema þá í eftirlitshlutverki. Það er að sjálfsögðu óviðunandi. Annað hvort er skráningin röng – og um faglært fólk að ræða sem nýtur ekki kjara í samræmi við menntun sína – eða hús eru einfaldlega reist á Íslandi af ófaglærðu fólki. Þetta er áhyggjuefni sem þarf að ræða frekar og rannsaka.