Vilji ný ríkisstjórn eiga samleið með þjóðinni verður að raða verkefnum með framsýni og sanngirni að leiðarljósi

Af fréttum að dæma er að verða til ný ríkisstjórn sem ætti að hafa möguleika á að sitja út kjörtímabilið og koma mörgum brýnum verkum í framkvæmd, verkum sem þarfnast að á þeim verði tekið af festu og þau ekki látin bíða fram á síðustu stundu. Innviðaverkefni eins og í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamál eru mál sem flestir eru sammála um að verði að hafa forgang.

Staðan í heilbrigðismálum er orðin mjög alvarleg og ef ekki verður tekið til hendinni eru miklar líkur á að núverandi kerfi fari að molna innan frá gegn vilja almennings. Fólk lætur ekki bjóða sér að geta ekki haft greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og mun leita annað sé hún ekki í boði. Verði það raunin munu þeir sem geta greitt fyrir þjónustuna fá forgang fram yfir þá efnaminni.  Það má fullyrða langflestir Íslendingar vilja ekki slíkt kerfi.
Málefni eldri borgara hafa verið hávær og er það málaflokkur sem ríkisstjórnin kemst ekki hjá að taka hratt og vel á.
Í nýrri rannsókn dr. Hauks Arnþórssonar stjórnsýslufræðings kemur í ljós að meira en helmingur eftirlaunaþega er með tekjur undir 350.000 kr. á mánuði. Sá sem býr einn og er með svo lágar tekur lifir við mjög þröng lífsskilyrði og getur lítið veitt sér. Þrátt fyrir hraðvaxandi eftirlaun frá lífeyrissjóðum þá batnar fjárhagsstaða lífeyrisþega lítið vegna mikilla tekjutenginga almannatrygginga.  Það getur ekki verið ásættanlegt að eftirlaunaþegi fái aðeins rúmar 30.000 kr. fyrir hverjar 100.000 kr. sem hann fær úr lífeyrissjóði.
Annað mál sem brennur á mörgum er þjónusta við eldri borgara og er þar bæði átt við þjónustu í heimahúsum og á hjúkrunarheimilum. Allt þetta kerfi þarf að taka til endurskoðunar bæði hvað varð uppbyggingu hjúkrunarheimila og mönnun heimaþjónustu. Forsenda góðrar þjónustu er að starfsfólki séu greidd góð laun svo það vilji gera þjónustustörf við eldri borgara að föstu starfi.

Samgöngumál brenna á mörgum ekki síst þeim sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu. Það er forsenda byggðar um allt land að samgöngur séu góðar og öruggar allt árið um kring. Íslendingar verða að ráðast í umfangsmiklar samgöngubætur næstu 10 árin og vinna upp áralanga vanrækslu í þessum málaflokki.

Forgangsröðun í menntamálum verður að taka mið af þeim þjóðfélagsbreytingum sem menn telja sig sjá í dag og kallaðar hafa verið „fjórða iðnbyltingin“. Liður í því er að efla verkmenntun og gera hana samkeppnishæfa við bóknámið en ef fram fer sem horfir verður mikill skortur á starfsfólki með góða verkmenntun sem mun takmarka framþróunina í atvinnulífinu.

Það verður ekki allt gert á sama tíma en það skiptir máli að verkefnum verði raðað niður af framsýni og sanngirni þannig að  um þau skapist friður. Við munum ekki láta bjóða okkur að allt eigi að gerast á síðast ári kjörtímabilsins eins og því miður oft hefur verið raunin.