Gegn frestun á núverandi framkvæmd um tilgreinda séreign

Fulltrúi Samiðnar í miðstjórn ASÍ, Hilmar Harðarson formaður Samiðnar, lagðist gegn frestun á núverandi framkvæmd um tilgreinda séreign og lagði fram eftirfarandi bókun við afgreiðslu málsins á fundi miðstjórnar ASÍ 8. nóvember sl.:

„Við afgreiðslu kjarasamninga 2016 var ákveðið að að setja í framkvæmd fyrirheit um hækkun iðgjalds til lífeyrissjóða í 15,5% sem gefið var árið 2011. Jafnframt var gefið fyrirheit um að sjóðsfélagar gætu skipt hækkuninni milli samtryggingar og séreignar og var það ein af forsendum þess að hækkunin var samþykkt.
Þrátt fyrir að ekki hafi verið komin lagastoð s.l. vor eins og gert var ráð fyrir í gildandi kjarasamningi voru það eindregin tilmæli ASÍ og SA að breyta samþykktum sjóðanna og urðu þeir við því þrátt fyrir mjög stuttan fyrirvara.
Að leggja til að framkvæmdinni verði frestað meðan ekki er starfhæf ríkisstjórn þjónar engum tilgangi og mun koma óorði á lífeyrissjóðina og skapa mikla óánægju meðal sjóðsfélaga.
Jafnframt er nauðsynlegt að horfa til 4. gr. laga nr. 129 /1997 en þar segir m.a. „Lífeyrissjóður skal, í samræmi við 24. gr. þessara laga, tilgreina það iðgjald sem þarf til að standa undir þeirri lágmarkstryggingavernd sem hann veitir.
Lífeyrissjóði er heimilt, í samræmi við tryggingafræðilega athugun að ákveða lágmark tryggingaverndar þannig að iðgjald sem varið er að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í séreign skv. II. kafla og að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í sameign skv. III kafla.“
Jafnframt segir: „Sjóðsfélagi getur ákveðið að ráðstafa til annars aðila en þess lífeyrissjóðs sem tekur við iðgjaldi vegna hans þeim hluta gjalds sem renna skal til séreignar skv. 3 mgr. 4 gr. og þeim hluta sem renna skal til viðbótartryggingaverndar.“
Samkvæmt lögum er lágmarks iðgjald 12% sem veitir lágmarkstryggingavernd sem svarar til 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af.
Verði framkvæmdinni um tilgreinda séreign frestað eru miklar líkur á að sjóðsfélagar nýti sér heimildir 4. gr. og ráðstafi iðgjaldi sem er umfram það sem þarf til að veita lágmarkstryggingavernd í óbundna séreign. Yrði það raunin myndi það skapa enn meiri glundroða og vandræði. Ég legg áherslu á að um leið og ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum verði teknar upp viðræður um ásættanlega lausn og á meðan verði beðið með frekari ákvarðanatöku.
Ég lýsi því hér með yfir að ég er andvígur því að fresta núverandi framkvæmd um tilgreinda séreign og mun mæla gegn því þar sem það á við. Frestun mun ekkert leysa en skapa mörg erfið vandamál og mikla óvissu.“

Reykjavík, 8. nóvember 2017

Hilmar Harðarson