Trúnaðarráð Byggiðnar samþykkti á fundi sínum 1. nóvember eftirfarandi ályktun um mikilvægi iðn- og verkmenntunar:
„Nú að loknum alþingiskosningum er rétt að minna á mikilvægi iðn- og verkmenntunar. Stjórnmálaflokkar kepptust um að draga fram mikilvægi iðn- og verkmenntunar fyrir land og þjóð í kosningabaráttu sinni. Trúnaðarráðsfundur Byggiðnar leggur áherslu á að orðum þarf að fylgja framkvæmd. Við skorum á þá aðila sem nú reyna að mynda ríkisstjórn að sýna í verki og hafa sem eitt af forgangsmálum sinna áherslumála í stjórnarmyndunarviðræðum að styðja við bakið á iðn- og verkmenntun. Það þarf að stórauka fé til verkmenntaskóla í landinu. Það þarf að kynna mun betur iðn- og verknám í grunnskólum og sú mynd sem gefin er af iðnaðarmannastarfi þarf að vera eftirsóknarverð. Það gerist ekki eingöngu með auknu fé til skóla heldur í umgjörð starfa okkar. Það þarf að tryggja að iðnlöggjöfin sé virt þannig að það séu iðnaðarmenn sem vinni iðnaðarmannavinnu. Það þarf að hyggja að öryggi og aðbúnaði starfsmanna á vinnustöðum og það þarf að tryggja atvinnuöryggi iðnaðarmanna með langtímasjónarmiðum. Til að ungt fólk vilji læra iðn- og verkmenntun þurfa þessir hlutir að vera í lagi. Til að núverandi iðnaðarmenn vilji starfa í iðngreinum þurfa þessir þættir að vera í lagi og til að sá mikli fjöldi iðnaðarmanna sem búa erlendis vilji starfa hér á landi þurfa þessir þættir að vera í lagi.“