Við biðjum um vandaða umræðu um okkar verðmætustu eign

Innan fárra daga göngum við Íslendingar til alþingiskosninga.  Fulltrúar stjórnmálaflokka fara út um víðan  völl og kynna stefnumál sín og tilboð til væntanlegra  kjósenda.  Loforðin spanna vítt svið en þó má segja að kjarninn í umræðunni sé ekki svo ólíkur. Húsnæðis- og heilbrigðismál  og tekjutengingar almannatrygginga eru mest áberandi.
Nokkur umræða hefur verið um lífeyrissjóðina okkar og vilja sumir stjórnmálamenn nýta þá til að koma sínum stefnumálum í framkvæmd. Í því sambandi er rétt að ítreka að lífeyrissjóðir eru í eigu almennings en ekki ríkisins og því æskilegt að stjórnmálamenn umgangist þá með þeim hætti en ekki eins og þeir séu  einhver skiptimynt sem þeir geti ráðstafað að eigin vild.

Það eru nokkur atriði í umræðunni sem ástæða er til að stoppa við og skoða betur.

Talað er um svissnesku leiðina í húsnæðismálum en hún felur í sér að hægt er að taka út áunnin réttindi sem lán og/eða veðsetja lífeyrisréttindi til að fjármagna húsnæðiskaup.

Í fyrsta lagi er rétt að hafa í huga að í Sviss tryggja almannatryggingar öllum lífeyrisþegum góða fjárhagslega afkomu  og kemur lífeyrir frá lífeyrissjóðum sem viðbót og er að mestu leyti í formi séreignar. Ekki ósvipað og við höfum verið að gera, það er að heimila fólki að nýta séreignarsparnað til íbúðarkaupa. Það sem er frábrugðið er að í Sviss eru reglur um úttekt á séreign til íbúðakaupa háðar miklu strangari reglum en á Íslandi.

Tillögur sem nú hafa verið settar fram af hálfu Framsóknarflokksins ganga miklu lengra að því leyti að þær heimila úttekt á samtryggingunni. Þær gera ráð fyrir að hægt sé að fá vaxtalaust lán út á áunnin réttindi  sem verði endurgreitt þegar húsnæðið verður selt og  með því  haldist réttindin óbreytt.  Í Sviss eru réttindin tekin niður þegar lán er veitt enda væri annað ósanngjarnt gagnvart öðrum sjóðsfélögum.

Á Íslandi er aldurstengt réttindakerfi sem felur  í sér að réttindi á fyrri hluta starfsævinnar eru verðmætari, enda eru þau  iðgjöld mun lengur í ávöxtun.  Ef einstaklingur er 20 ár á lífeyri má gera ráð fyrir að iðgjaldið fjármagni fyrstu 10 árin en afgangurinn fjármagnar ávöxtun iðgjaldsins.  Vaxtalaust lán  sem tekið er á fyrrihluta starfsævinnar  og endurgreitt á seinni hluta hennar geta því aldrei skapað sömu réttindi nema að gengið sé á rétt annarra sjóðsfélaga.

Mikilvægt er að hafa í huga að réttindi í lífeyrissjóðum eru ekki aðfararhæf og eru því ósnertanleg þrátt fyrir t.d. gjaldþrot einstaklinga.  Þetta skipti mjög miklu máli fyrir fjölda einstaklinga og fjölskyldur í hruninu en þegar uppi var staðið var lífeyriseignin  kannski eina eignin sem eftir stóð.  Það er gríðarlegt hagsmunamál að á þessu verði engin breyting.

 Margt fleira væri  hægt að nefna  um þessa tillögu t.d. áhrif hennar á örorkulífeyri.

Annar stjórnmálaflokkur vill þvinga lífeyrissjóði til að fjárfesta í nýsköpun. Staðreyndin er sú að íslenskir lífeyrissjóðir hafa áratuga reynslu af því  að fjárfesta í nýsköpun en þeir hafa valið að fara í gegnum sérhæfða sjóði m.a. til að dreifa áhættu. Í fjárfestingastefnu  lífeyrissjóða er hægt að sjá að þeir hafa afmarkað ákveðið hlutfall sem á að fara í þessa tegund fjárfestinga.

3,5% ávöxtunarviðmið hefur enn og aftur komið til umfjöllunar og því haldið fram að lífeyrissjóðirnir séu bundnir af því og megi ekki fjárfesta í fjármálagjörningum sem bera lægri vexti en 3,5%. Þarna er  á ferðinni  mikill misskilningur og stundum held ég að stjórnmálamenn viti betur, en það hentar þeim að halda þessari staðreyndarvillu fram.

Það rétta er að lífeyrissjóðir eru ekki bundnir af 3,5% ávöxtun þegar teknar eru ákvarðanir um fjárfestingar. Ef svo væri hefðu þeir ekki keypt ríkispappíra í mörg ár.  3,5%  eru eingöngu notuð við tryggingafræðilegt uppgjör þ.e. þegar verið er að meta virði framtíðariðgjalda.

Tökum dæmi.

Á hverju ári ber lífeyrissjóði að  láta fara fram mat á eignum og skuldbindingum. Við matið er horft til eigna  sjóðsins og skuldbindinga eins og þær eru hverju sinni. Þegar framtíðin er metin er horft til þess hvað iðgjöld þeirra sjóðsfélaga sem eru í sjóðnum á þeim tíma verði fram að 67 ára aldri. Til að finna út hvers virði ókomin iðgjöld eru og hvaða réttindi þau skapi er gert ráð fyrir að ávöxtun væntra iðgjalda í framtíðinni verði 3,5%.   Þarna er eingöngu um spá að ræða en bindur lífeyrissjóðinn  ekki þegar kemur að ákvörðun um fjárfestingar.

Látum þetta duga að sinni en göngum með virðingu um  dýrmætustu eign fólksins.