Er verið að leggja niður íslenskt velferðarkerfi?!

Norræn velferðakerfi byggjast á því að við tökum sameiginlega ábyrgð á hvert öðru. Við förum margvíslegar leiðir að þessu markmiði. Við erum með heilbrigðiskerfi, menntakerfi og almannatryggingar, barnabætur fyrir barnafólk og húsnæðisstuðning. Við semjum um réttindi fólks í gegnum kjarasamninga s.s. um lífeyrisréttindi og greiðslu sjúkradagpeninga svo eitthvað sé nefnt. Réttindi sem koma í gegnum ríki og sveitarfélög eru háð fjárveitingum hverju sinni og pólitískum vilja þeirra sem eru við stjórnvölin.
Sé horft yfir tuttugu ára tímabil má segja að styrkur velferðarkerfisins hafi verið að gefa eftir, hvort sem horft er til jöfnunar í skattkerfi, vaxta- eða barnabótum.  Allir stjórnmálaflokkar sem starfað hafa yfir lengra tíma og átt hafa aðild að ríkisstjórnum bera á þessu ábyrgð.
Stjórnvöld hafa beitt eignar- og tekjutengingum með þeim hætti að þessi stuðningskerfi nýtast eingöngu þeim allra lægst launuðu og svo er komið að lágmarkslaun skerða réttindi til bóta, þrátt fyri að flestir séu sammála um að engin geti lifað á þeim launum.
En hvernig stendur á að íslenskt velferðarkerfi hefur gefið svona mikið eftir?  Hver hefur tekið þessar ákvarðanir?  Hefur einhver stigið fram í kosningum og sagt það með beinum orðum að það eigi að leggja niður almennan stuðing til jöfnunar lífskjara á Íslandi?
Svarið er, það hefur engin haft kjark eða þrek til að stíga fram og segja þetta með berum orðum, heldur valið þá leið að einfaldlega framkvæma þessar breytingar á löngum tíma svo við skynjum þær ekki fyrr en þær bitna á okkur sjálfum.
Þessi þróun hefur átt sér stað víða í okkar samfélagi sem hefur verið breytt í grunvallaratriðum án þess að þjóðin hafi verið spurð hvort hún vilji fara í þessa vegferð.
Það er orðið aðkallandi að þjóðin stígi fram og segi við stjórnmálamenn, hingað og ekki lengra.  Íslendingar vilja velferðarkerfi að Norrænni fyrirmynd en ef framheldur sem horfir verður tæpast hægt að tala um að á Íslandi sé Norrænt velferðarkerfi.