Í gildandi kjarasamningi Samiðnar og SA er kveðið á um að iðgjald til lífeyrissjóða hækki í áföngum og verði 15,5% 1. júlí 2018.
Iðgjaldið hækkaði 1. júlí 2016 um 0,5% og hækkar um 1,5% 1. júlí n.k. og svo önnur 1,5% 1. júlí 2018
Í gildandi kjarasamningi er gert ráð fyrir að einstaklingar geti ráðstafað allri viðbótinni eða hluta hennar í svokallaða„tilgreinda séreign“ sem verður aðskilin frá hefðbundinni séreign enda hluti af skylduiðgjaldi.
Lífeyrissjóðir á samningssviði ASÍ og SA eru þessa daganna að vinna að breytingum á samþykktum sínum og er gengið út frá því að regluverkið verði tilbúið 1. júlí n.k.
Einstaklingurinn velur leið
Til þess að viðbótariðgjaldið fari í tilgreinda séreign verður einstaklingurinn að gera skriflegan samning um skiptinguna þ.e. hvort allt viðbótariðgjaldið skuli renna í tilgreindu séreignina eða einungis hluti þess. Einng þarf einstaklingurinn að ákveða fjárfestingaleið, ef hann gerir það ekki fer tilgreinda séreignin í ákveðna fjárfestingaleið.
Bregðist einstaklingurinn ekki við rennur viðbótariðgjaldið í samtrygginguna og hækka réttindin í hlutfalli við það.
Ef allt gengur eftir ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu 1. júlí n.k. fyrir þá einstaklinga sem þess óska að gera samning við sinn lífeyrissjóð um tilgeinda séreign.
Þrátt fyrir að ekki sé gerður samningur 1. júlí er hægt að gera samning hvenær sem er og gildir hann þá frá þeim tíma sem hann er gerður.
Hver eru áhrifin?
Þegar einstaklingur tekur ákvörðun um ráðstafa viðbótariðgjaldinu í tilgreinda séreign hefur það áhrif t.d. á örorkutrygginguna. Fyrir ungan einstakling getur það haft mikil áhrif á fjárhagslega afkomu hans ef hann verður fyrir því að verða öryrki síðar á lífsleiðinni.
Þeir sem eru í samtryggingunni eiga rétt á framreikningi ef þeir verða öryrkjar. Það þýðir t.d. að einstaklingur sem verður öryrki 30 ára og hefur greitt til lífeyrissjóðs í 3 ár, á rétt á því að réttindi hans séu uppreiknuð og miðuð við að hann hefði greitt til 65 ára aldurs. Ákveði þessi einstaklingur að láta allt viðbótariðgjaldið renna í tilgreinda séreign miðast örokulífeyrinn og framreikningurinn við 12% iðgjaldið en ekki 15,5%.
Aukið valfrelsi og ábyrgð
Með tilgreindu séreigninni er verið að auka valfrelsi einstaklinganna en jafnframt verið að leggja aukna ábyrgð á þá sjálfa við val fjárfestingaleiðum og samsetningu lífeyristyggingar.
Það er mikilvægt að hver og einn gefi sér góðan tíma til að meta kosti og galla við að velja tilgreinda séreign áður en ákvörðunin er tekin. Ef það vakna spurningar og eitthvað er óskýrt er rétt að hafa samband við sinn lífeyrissjóð eða stéttarfélag.