Markaðurinn getur ekki einn og sér leyst húsnæðisskortinn

Skortur á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu er alvarlegur samfélagslegur vandi sem verður að takast á við og finna lausnir á. Sú mikla eftirspurn sem er til staðar er tilkomin m.a. vegna þess að lítið sem ekkert var byrjað á nýjum íbúðum á tímabilinu 2008 til 2014 og svo hins vegar að í vaxandi mæli er verið að leigja almennt íbúðarhúsnæði til erlendra ferðamanna. Miðað við spár um fjölda ferðamanna á næstu árum eru ekki líkur á að dragi úr eftirspurninni né að framleiðslugeta markaðarins fylli upp í gatið sem varð til 2008-2014.  Sé þetta rétt er fátt sem bendir til að við sjáum fram á jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu árum.

Almennt er horft til þess að húsnæðiskostnaður sé á bilinu 20 til 25% af ráðstöfunartekjum fjölskyldna. Ljóst er miðað  við þær fréttir sem berast af t.d leiguverði  þá búa fjölmargar fjölskyldur   við miklu hærra hlutfall.

Til að bregðast við þessum mikla samfélagslega vanda verða bæði sveitarfélög og ríki að koma  að borðinu með öflugum hætti. Sveitarfélögin verða að auka lóðaframboð ekki síst á svæðum þar sem hægt er að byggja hraðar og þar sem hægt er að beita meiri hagkvæmni heldur en á afmörkuðum þéttingarsvæðum. Huga þarf að verðlagningu lóða því eins og ástaðið er í dag þá hefur skortur á  lóðum hækkað markaðsverð upp fyrir öll eðlileg mörk og er verðlagningin  knúin  áfram af takmörkuðu lóðaframboði.

Jafnframt því að stórauka þarf  lóðaframboð þarf ríkið að  stíga fram með áætlun um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að mæta eftirspurninni með skýrum  tímamörkum. Bæta þarf alla ferla og stytta tímann frá því að ákvörðun er tekin um framkvæmdir þar til hægt er að hefja framkvæmdir. Stórauka þarf fjárstyrki til sameignarfélaga sem byggja og leigja húsnæði og eru ekki  rekin í hagnaðarskyni.

Þessi mikli samfélagslegi vandi sem húsnæðisskorturinn er verður ekki leystur eingöngu með markaðslausnum. Til þess að við sjáum einhverjar breytingar á næstu árum verður að ráðast  í  þjóðarátak sem hefur það að markmiði að jafnvægi verði komið á húsnæðismarkaðinn innan 5 ára.