Félagsleg undirboð eru glæpur

Mikill uppgangur er í mannvirkjagerð og almennri byggingastarfsemi. Til að mæta eftirspurn eftir starfsfólki hefur verið fluttur inn mikill fjöldi erlendra starfsmanna. Samkvæmt reglum sem gilda meðal EES landanna eiga erlendir starfsmenn að njóta sambærilegra starfskjara og innlendir starfsmenn.
Á Íslandi gildir sú almenna regla að kjarasamningar gilda sem lágmarkréttindi fyrir alla sem starfa á samningssviði viðkomandi kjarasamnings.
Þetta þýðir t.d. að allir byggingarmenn sem eru með viðurkennd starfsréttindi frá heimalandi sínu eiga að njóta allra þeirra réttinda sem kjarasamningur tryggir.

Því miður er framkvæmdin önnur, mörg fyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu greiða starfsmönnum langt undir umsömdum kauptöxtum iðnaðarmanna og stunda þar með félagsleg undirboð.
Í mörgum tilfellum getur verið um verulegar upphæðir að ræða sem hafðar eru af starfsmönnum með þessum hætti.
Að stunda félagsleg undirboð er mjög alvarlegt og flokkast undir skipulagða glæpastarfssemi og á að meðhöndlast sem slíkt. Að greiða starfsfólki laun sem eru langt undir því sem starfsmaðurinn á rétt á er engu minni þjófnaður en að taka ófrjálsri hendi fjármuni annarra.
Það er alvarlegt þjóðfélagslegt mein hvernig við sem almennir borgarar horfum fram hjá þessu og látum eins og við vitum ekki hvernig oft á tíðum er farið með erlent starfsfólk hér á landi.