Í kjarasamningunum 2011 gerði Samiðn kröfur um að tekin yrði upp svo kölluð keðjuábyrgð þ.e. að aðalverktaki eða verkkaupi tryggi að undirverktakar tryggi starfsmönnum undirverktaka réttindi sem byggja á lögum og kjarasamningum.
Þessi krafa náði ekki fram en ákveðið var að halda áfram viðræðum við SA sem og var gert. Þær viðræður báru engan árangur enda lögðust fulltrúar verktaka gegn því og töldu gengið á almennt samningsfrelsi með slíkri ábyrgð. Viðræðurnar flosnuðu því upp enda samningsgrundvöllurinn ekki til staðar.
Nú er þetta mál komið aftur á dagskrá og ekki seinna vænna. Íslensk verktakafyrirtæki stunda grimmt að ráða til sín erlenda undirverktaka og telja sig þar með hafa fríað sig allri ábyrgð á kjörum starfsmanna sinna undirverktaka. Þeir koma ítrekað í fjölmiðla og endurtaka sömu tugguna, að þeir viti ekki betur en að sínir verktakar fari eftir kjarasamningum og lögum. Þetta endurtaka þeir þrátt fyrir að þeir hafi ítrekað verið staðnir að verki og öllum megi ljóst vera að það er verið að hlunnfara erlenda starfsmenn sem eru í þeirra þjónustu.
Nú er ekki hægt að bíða lengur, koma verður á keðjuábyrgð þannig að verkkaupi og aðalverktaki taki fulla ábyrgð að því að starfsmönnum í þeirra þágu sé tryggð laun sem eru sambærileg og Íslendingar fá fyrir sambærileg störf. Allt annað eru félagsleg undirboð sem ekki er hægt að líða enda eru þau brot á lögum og skekkja samkeppni.
Tökum á félagslegum undirboðum eins og hverju öðru lögbroti, dæmum með sambærilegum hætti og um fjársvikamál sé að ræða. Það er glæpur að koma þannig fram við fólk að það fær ekki að njóta þeirra mannréttinda sem kjarasamningar og lög tryggja.