Ályktun miðstjórnar ASÍ um aukinn ójöfnuð í lífeyrismálum

Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega áformum ríkisstjórnarflokkanna að auka á þann hróplega mismun sem er í lífeyrisréttindum landsmanna með því að hækka lífeyristökualdur í almannatryggingum í 70 ár. Þetta er gert þrátt fyrir að frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda milli launafólks á almennum og opinberum vinnumarkaði hafi verið dregið til baka. Það gengur ekki að ætla almenningi að búa við 70 ára lífeyristökualdur á sama tíma og alþingismenn og opinberir starfsmenn geta farið á fullan lífeyri 65 ára. Það er fráleitt að umræða um aukinn jöfnuð á vinnumarkaði endi með því að stjórnvöld auki verulega á það misrétti sem fyrir er. Verði þetta niðurstaðan er um hrein svik að ræða varðandi jöfnun lífeyrisréttinda og samstillingu almannatrygginga og lífeyrissjóða sem mun valda fullkomnum trúnaðarbresti í samskiptum Alþýðusambandsins og stjórnarflokkanna. Slík svik munu óhjákvæmilega hafa afdrifaríkar afleiðingar. Miðstjórn ASÍ lítur málið alvarlegum augum og mun taka það til sérstakrar umræðu á 42. þingi sambandsins dagana 26.-28. október nk.

Greinargerð:
Á undanförnum misserum hafa heildarsamtök á vinnumarkaði unnið að gerð nýs samningalíkans á vinnumarkaði með það að markmiði að styðja betur við efnahagslegan stöðugleika og raunverulega kaupmáttaraukningu (Salek). Ein megin forsenda þess að hægt sé að koma á slíku líkani er að jafnræði ríki í lífeyrismálum launafólks enda eru lífeyrisréttindi veigamikill þáttur umsaminna kjara. Í dag eru lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna umtalsvert betri en á almennum vinnumarkaði, lífeyrisaldur lægri, réttindaávinnsla jöfn og lífeyrisréttindin tryggð að fullu með bakábyrgð ríkis og sveitarfélaga. Full samstaða hefur verið um það milli allra heildarsamtaka launafólks á vinnumarkaði að framtíðarskipan lífeyrisréttinda yrði á grundvelli meiri jafnræðis í lífeyrisréttindum, þar sem miðað yrði við aldurstengda réttindaávinnslu og 67 ára lífeyrisaldur í sjálfbæru lífeyriskerfi. Þetta var ein af þremur meginstoðum þess rammasamkomulags, sem lá til grundvallar sameiginlegri launastefnu til loka árs 2018 (Salek). Aðildarfélög ASÍ sömdu sig að þessari niðurstöðu í janúar sl. þegar 3,5% af launahækkunarsvigrúmi var ráðstafað til jöfnunar lífeyrisréttinda og fyrir lá að samtök opinberra starfsmanna yrðu að semja um breytingar á sínu lífeyriskerfi í þessa veru. Það var því mikið fagnaðarefni þegar samningar tókust milli fjármálaráðherra og sveitarfélaganna við samtök opinberra starfsmanna um breytingar á opinbera lífeyriskerfinu og aðlögun þess að fyrrgreindum markmiðum. Jafnframt er ljóst að öll fjögur heildarsamtök launafólks, ASÍ, BSRB, KÍ og BHM stóðu, bæði á vettvangi Landssamtaka lífeyrissjóða og í nefnd um endurskoðun almannatrygginga, að tillögum um samræmda hækkun lífeyrisaldurs úr 67 árum í 70 ára í áföngum á næstu 24 árum. Í tillögum nefndar um endurskoðun almannatrygginga frá því í vor var lögð áhersla á að ,,samræmi sé milli almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins hvað lífeyrisaldur varðar og að hann sé hinn sami í báðum lögbundnu lífeyriskerfunum.‘‘ Nú þegar fjármálaráðherra hefur ákveðið að draga til baka tillögur um jöfnun lífeyrisréttinda er forsenda fyrir hækkun lífeyristökualdurs í almannatryggingakerfinu brostin. Það eru hrein og klár svik við almennt launafólk að halda þeirri ákvörðun til streitu.