Taktlaus vinnubrögð ríkisstjórnarinnar

Samiðn mótmælir harðlega framkomnum tillögum ríkisstjórnarinnar um hækkun eftirlaunaaldurs í 70 ár á næstu 12 árum. Þessi tillaga er ekki í samræmi við framkomnar tillögur sem samstaða var um en í þeim var gert ráð fyrir að breytingin yrði innleidd á 24 árum. Það ber ekki vott um fagleg vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera róttækar breytingar á tillögum sem viðtæk sátt er um á síðustu stundu.

Við breytingar á eftirlaunaaldri er mikilvægt að horfa til þess að jafnsettir einstaklingar komi með sem hliðstæðustum hætti út úr breytingunum. Eftir því sem aðlögunartímabilið er styttra verður erfiðara að ná þessu mikilvæga markmiði. Einnig er mikilvægt að horft sé til þess að fólk fái nægan tíma til að aðlaga sig að svo rótækri breytingu þar sem það hefði mátt vænta þess að geta farið á lífeyri 67 ára.

Við svo miklar og örar breytingar er nauðsynlegt að samráð sé haft við vinnumarkaðinn og hann gangi í takt við breytingarnar og að starfsöryggi eldra fólks sé tryggt en slíkt er ekki til staðar í dag.

Nú þegar er eftirlaunaaldur hærri á Íslandi en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Með tillögu ríkisstjórnarinnar um hækkun eftirlaunaaldurs á næstu 12 árum, mun munurinn verða hrópandi þrátt fyrir að þróun lífaldurs sé hliðstæður.

Einnig lýsir Samiðn yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun um hækkun iðgjalda til opinberu lífeyrissjóðanna í stað þessa að samræma lífeyrisréttindi landsmanna, sem mun festa í sessi til langrar framtíðar óásættanlegan mismun lífeyrisréttinda.
Við gerð síðustu kjarasamninga var lögð áhersla á að ná sátt um fyrirkomulag kjarasamningsgerðar en skilyrði fyrir að það næðist fram, var að fyrir lægi samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda.

Gengið hefur verið út frá því að nauðsynlegar lagabreytingar yrðu gerðar á yfirstandi þingi en nú bendir hins vegar allt til þess að Alþingi ætli að hverfa frá þeirri ætlan en í staðinn hækka iðgjöld til opinberu sjóðanna og festa í sessi til langrar framtíðar þann mikla mun sem er á lífeyrisréttindum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Verði það niðurstaðan er ljóst að það hafa skapast miklir erfiðleikar við að ná samkomulagi um nýtt samningslíkan.