Framkvæmdastjórn Samiðnar lagði land undir fót í gær og heimsótti Húsavík og skoðaði yfirstandandi framkvæmdir við gerð gufuaflsvirkjunar á Þeystareykjum og byggingu kísilmálmverksmiðju á Bakka. Formaður Framsýnar Aðalsteinn Baldurssson og formaður Þingiðnar Jónas Kristjánsson fóru fyrir hópnum auk fulltrúa verktaka á svæðinu. Stækkun Húsavíkurhafnar og gerð ganga á milli hafnarinnar og verksmiðjunnar eru hluti af þessum umfangsmiklu framkvæmdum og var það mat formanna félaganna að algjör viðsnúningur hafi orðið í atvinnumálum á svæðinu. Af heimsókninni má ráða að bjartsýni gætir meðal heimamanna og vonast menn til að snúið verði af skeiði fólksfækkunar á svæðinu sem telst vera um 18% (1998-2015) og bjartari tímar taki nú við, bæði hvað varðar fjölbreyttara atvinnulíf með afleiddum störfum og ekki síður að unga fólkið sjái tækifæri í heimabyggð sem ekki gáfust áður.