Það voru merkilegar fréttir af árangri Kjararáðs í gær. Síðustu mánuði hafa aðilar vinnumarkaðarins verið að reyna að ná saman um nýtt samningsmódel þar sem búinn verður til efnahagslegur rammi. Megin markmið með þessari vinnu er að skapa hliðstæðar aðstæður og á hinum Norðurlöndunum hvað varðar efnahagslegan stöðugleika og vaxandi kaupmátt. Ríkið hefur lýst vilja til að koma að þessu verkefni og skrifað undir viljalýsingu því til staðfestingar. Forsenda þess að samkomulag náist er að almenningur fái trú á að allir hafi sömu tækifæri innan rammans til að sækja launahækkanir. Krafan hefur verið hjá mörgum hópum að það þurfi að leiðrétta áður en farið verður inní rammann. Þessi niðurstaða Kjararáðs staðfestir að þetta er réttmæt krafa og það beri að leiðrétta áður en við getum byrjað að vinna samkvæmt nýja samningslíkaninu. En fyrst hæst launuðustu embættismenn landsins þurftu leiðréttingu hlýtur það að vera réttlátt að allir sem eru lægri fái leiðréttingu. En hvað þýðir þetta? Ríkisvaldið vill viðhalda gömlu aðferðinni að allir sæki það sem þeir geta og svo tökum við afleiðingunum með verðbólgu og lakari lífskjörum. Nei, svona vinnubrögð ganga ekki. Embættismenn ríkisins verða að halda sig innan þess ramma sem búið er að semja um. Kjararáð hefur ítrekað sýnt að það er óhæft og það á að leggja það niður. Æðstu embættismenn ríkisins ættu að lýsa því yfir að þeir hafni þessum launahækkunum sem Kjararáð hefur fært þeim og þeirra launahækkanir verði sambærilegar við það samið hefur verði um hjá öðrum á síðustu mánuðum.