Kjarasamningarnir sem gerðir voru 21. janúar s.l. voru samþykktir með miklum meiri hluta atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna stéttarfélaga innan ASÍ.
Gangi kjarasamningurinn eftir eins og hann er lagður upp, mun kaupmáttur vaxa á Íslandi hraðar en í nokkru öðru landi sem við berum okkur saman við. Boginn hefur hins vegar verið spenntur og því mikilvægt að allir sameinist um að tryggja árangurinn en hann ræðst fyrst og fremst af því hvort okkur muni takast að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Ytri skilyrði er á margan hátt okkur í hag og því ræðst árangurinn eins og oft áður af því hvernig okkur sjálfum tekst að halda á t.d efnahagstjórninni. Þetta er hægt ef allir leggjast á eitt.
Með samþykkt samninganna hefur verið mótaður farvegur fyrir margvísleg umbótamál sem samkomulag er um að fara í og má þar helst nefna:
– Samræmingu lífeyriskerfa sem lengi hefur verið baráttumál ASÍ stéttarfélaganna.
– Stórátak í húsnæðismálum þeirra sem ekki hafa efnahagslegar forsendur til að kaupa húsnæði á almenna markaðnum.
– Endurskoðun á almennum veikindarétti í kjarasamningum og hvernig hægt er að tengja hann betur virkri endurhæfingu.
– Nýtt samningsmódel sem ef vel tekst til gæti náð til alls vinnumarkaðarins.
– Meiri efnahagslegan stöðugleika sem er forsenda þess að við getum búið almenningi hliðstæða kjör og þekkjast í okkar nágrannalöndum.
Þetta eru allt gríðarlega mikilvæg mál og skiptir okkur öll miklu máli að vel takist til og á það ekki síst við um unga fólkið.
Takist okkur ekki að skapa hér á landi lífsskilyrði sem standast samanburð við t.d. hin Norðurlöndin, blasir við að Ísland verður ekki samkeppnishæft um ungt fólk.
Sjaldan eða aldrei hefur íslenskur vinnumarkaður staðið frammi fyrir jafn ögrandi verkefnum. Tíminn sem við höfum til að ná árangri er ekki ótakmarkaður og því mikilvægt að vel sé haldið á og það líði ekki allt of langur tími þar til við förum að sjá árangur erfðins.
Við höfum lagt mikið undir og okkur má ekki mistakast, við skuldum almenningi að ná árangri sem leggur veginn að betra samfélagi þar sem allir hafa jöfn tækifæri.