Nýr kjarasamningur sem getur markað nýtt tímabil

Í gær voru undirritaðir nýir kjarasamningar milli aðildarfélaga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins sem marka nokkur tímamót. Í fyrsta lagi er komið endanlegt samkomulag um hækkun á iðgjaldi til lífeyrissjóða sem skapar forsendur til þess að samræma lífeyriskerfin milli almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera. Þetta mál er búið að vera lengi á dagskrá og kom inn í kjarasamninga 2011 en þá var það með fyrirvara af hálfu SA um að samkomulag væri um eitt samræmt lífeyriskerfi.
Það er vitað mál að það eru skiptar skoðanir á að hækka iðgjald til lífeyrissjóða en sá mismunur sem hefur verið á lífeyri eftir því hvort um er að ræða opinberan starfsmann eða starfsmenn á almenna markaðinum hefur verið óásættanlegur. Þannig hefur starfsmaður hjá hinu opinbera getað vænst 76% af meðallaunum í lífeyri á meðan starfsmenn á almennum markaði hafa getað vænst 56%.
Það getur verið mikill munur á meðallaunum yfir starfsævina og lokalaunum vegna þess að launakúrfan er þannig að launin fara hækkandi í upphafi og ná hámarki upp úr fertugu og fara svo lækkandi. Þetta gerir það að verkum að hlutfall lífeyris af lokalaunum er mun lægri en meðaltalið gefur til kynna og er væntanlega á milli 40 til 45% á almenna markaðinum en ekki 56%. Þessi mikli munur gerir mörgum mjög erfitt fjárhagslega að fara á eftirlaun.
Annað sem gerir þennan kjarasamning áhugaverðan og sérstakan er að hann leggur grunn að samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um nýtt vinnumarkaðsmódel. Það er orðið mjög brýnt að innleiða nýtt vinnulag við gerð kjarasamninga og taka upp markvissari vinnubrögð. Því verður áhugavert fylgjast með þeirri vinnu sem fram fer á næstu misserum við mótum þessa nýja vinnumarkaðsmótels sem skipt getur sköpum um árangur náist til framtíðar.
Í þriðja lagi tryggir samningurinn almennar launahækkanir umfram það sem búið var að semja um og dreifast á samningstímann allt til loka árs 2018. Það er öllum ljóst að búið er að spenna bogann býsna hátt og ekkert má út af bera ef vel á að fara. En með þeirri sátt sem er að nást á íslenskum vinnumarkaði eru meiri líkur en minni á farsælli niðurstöðu. En til að svo megi verða þurfa allir að spila með enda munu allir njóta árangursins ef vel tekst til.
Á næstu dögum munu félagsmenn greiða atkvæði um hinn nýja kjarasamning. Það er mikilvægt að það verði góð þátttaka enda er um einstaka atkvæðagreiðslu að ræða því að á milli 60 til 70.000 launamenn hafa atkvæðisrétt.