„Þetta sem ég sagði á meðan ég var í stjórnarandstöðu var allt djók“

En á ný er kominn föstudagur og vinnuvikunni að ljúka.  Staðan í kjarasamningsgerðinni er þannig eftir vikuna  að eftir er að gera kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga og finna lausn á  deilunni  í Straumsvík.

Iðnaðarmenn sem starfa hjá  sveitarfélögum eru lægst launuðu iðnaðarmennirnir og því brýnt að það náist sátt um að lagfæra launin og þau verði hækkuð þannig þau séu  ekki lakari en hjá ríki og Reykjavíkurborg.  Það hefur verið skilningur hjá samninganefnd SÍS um að  þetta þurfi að laga  en erfiðlega hefur gengið að finna lausn sem sátt er um. Vandinn er m.a. starfsmatið sem sveitarfélögin nota við launasetningu starfsmanna sinna en þar má engu breyta  þrátt fyrir að vitleysan blasi við öllum sem til þekkja.  Vinnan heldur áfram eftir helgi og vonandi næst viðunandi niðurstaða á næstu dögum sem starfsmenn sveitarfélaga geta unað við.

Nú þegar fer að sjást fyrir endann á þessari löngu kjarasamningalotu er ástæða til að horfa yfir sviðið og meta árangurinn.  Í Morgunblaðinu í dag er frétt um að kaupmáttur almennra launa hafi aldrei verið meiri á Íslandi en í dag. Sé þetta rétt er það staðfesting á að vinnan og baráttan hefur skilað árangri og verkefnið framundan er að varveita árangurinn og skapa stöðugleika sem er forsenda  þess hægt sé að varveita hann. Næstu vikur munu ráða úrslitum um hvort okkur takist að varveita þennan góða árangur en til þess að svo geti orðið verða allir að spila með.

Öll spjót standa á ríkisstjórnina og spurningin er hvort hún ætlar að spila með. Ætli hún að vera stikkfrí  verður erfitt að varðveita árangurinn og hætta á að við lendum í gamla farinu þar sem verðbólga étur upp árangurinn. 

Ríkisstjórnin getur ekki verið stikkfrí, hún mótaði niðurstöðuna í kjaramálunum með samningum sem hún  gerði  m.a við lækna og síðan með gerðadómnum gagnvart háskólafólkinu.  Ríkisstjórn sem vill láta taka sig alvarlega getur ekki hagað sér með þeim hætti að segja út í miðri hringiðunni að þetta sé ekki mitt mál heldur mál atvinnulífsins.

Á árunum eftir hrun var samstaða um að hækka tryggingagjaldið tímabundið m.a vegna mikils atvinnuleysis en jafnframt gengið útfrá því að það myndi lækka þegar betur áraði.  Nú eru allir sammála um að hér á landi sé mikil efnahagsleg uppsveifla, hagvöxtur með því hæsta sem þekkist og lítið atvinnuleysi miðað við okkar nágrannalönd. Allar aðstæður eru því til staðar fyrir ríkið að skila tryggingagjaldinu til baka til atvinnulífsins eins og um var samið. Lækkun tryggingagjaldsins mun renna í vasa launamanna með þeim hætti að það dregur úr þörf fyrirtækjanna til að  láta launahækkanir fara beint út í verðlagið og verði að fóðri fyrir verðbólguna.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar gangrýndu ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir m.a. fyrir að hækka skatta.  Nú þegar efnahagslífið gengur vel og fjármunir streyma inn í ríkissjóð virðist standa í þeim góðu herrum að standa við gefin loforð og skila til baka hækkun á tryggingagjaldinu sem þeir gangrýndu forðum. 

Til hægt sé að byggja upp efnahagslegan stöðugleika verður að vera hægt að treysta því að stjórnvöld standi við gefin loforð þrátt fyrir að það verði ríkisstjórnarskipti. Hér á landi virðist það vera regla frekar en undantekning  að þegar ný ríkisstjórn kemur segja nýir herrar „þetta sem ég sagði meðan ég var í stjórnarandstöðu var allt í djóki.“

Þannig er ekki hægt að haga sér ef okkur á að takast að byggja um samfélag að norrænni fyrirmyndi í anda þess sem atvinnulífið kallar eftir.