Undirritaður var nýr kjarasamningur við Reykjavíkurborg í gærkveldi sem gildir frá 1. maí 2015 til 31. mars 2019. Launabreytingar á samningstímanum eru rúmlega 25% auk áhrifa vegna breytinga á einstaklingsbundnum ávinnslurétti. Upphafshækkunin er 25.000 kr. og gildir frá 1. maí 2015. Árið 2016 er hækkunin 6% en árið 2017 er gerð breyting á launtöflu sem metin er á 5,4% og hefur mun meiri áhrif á yngri starfsmenn til hækkunar.
Sú veigamikla breyting er gerð á ávinnslurétti sem tengist starfsreynslu að frá fyrsta maí verður horft til fagreynslu við mat á rétti til að fá viðbótarflokka. Þetta felur í sér að starfsmenn taka með sér fagreynslu af almenna markaðnum.Inn í samninginn koma ný ákvæði um viðbótarflokka vegna menntunar og bókun um að vinna enn frekar í útfærslu á þeim lið m.a að hægt verði að meta styttri námskeið til launa. Viljayfirlýsing er um að skoða hvernig hægt sé að virkja núgildandi ákvæði um markaðstengingu.
Kynningarfundur
Boðað er til kynningarfundar um samninginn með félagsmönnum FIT og Byggiðnar sem starfa eftir kjarasamningi Samiðnar og Reykjavíkurborgar í Borgartúni 30, 6.hæð þriðjudaginn 24. nóvember kl. 9 (húsið opnar kl. 8:30 með kaffiveitingum). Að loknum fundi verður opnað fyrir rafræna kosningu um samninginn.
Fundarefni:
1. Kynning á nýgerðum kjarasamningi Samiðnar við Reykjavíkurborg.
2. Kosning trúnaðarmanns FIT
3. Kosning trúnaðarmanns Byggiðnar
4. Önnur mál