Er skriðan að renna af stað?

Í vikunni sem er að líða hefur einum kjarasamningi verið landað þ.e. samningi við Orkuveitu Reykjavíkur. Sá samningur er allt í senn hefðbundinn og óvenjulegur, hefðbundinn hvað varðar að hann tekur mið af SA samningnum en óvenjulegur vegna þess að það eru gerðar miklar breytingar á taxtauppbyggingu og bakvöktum.
Samningurinn verður kynntur n.k. mánudagsmorgun og fer í atkvæðagreiðslu í beinu framhaldi. Niðurstaðan á að liggja fyrir 16. nóvember.
Annað sem vert er að vekja athygli á er að starfsmenn álversins í Straumsvík samþykktu verkfall í annað sinn sem mun hefjast í byrjun desember n.k.
Varðandi aðra samninga þá höfum við átt í viðræðum við samninganefnd ríkisins og er sú vinna komin í góðan gang og er vilji beggja aðila að ljúka þeim viðræðum með samningi á næstu dögum. Drögin sem unnið er með taka miða af þeim kjarasamningum sem ríkið hefur gert við önnur stéttarfélög á síðustu vikum.
Viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga eru ekki komnar í gang en við höfum átt samtöl við Reykjavíkurborg og gerum ráð fyrir að þær fari á skrið í næstu viku. Varðandi aðra samninga, s.s. við stofnanir sem tengjast þessum samningum, hafa viðræður legið niðri þar til stóru línurnar fara að skírast.
SALEK hópurinn er að störfum en engar niðurstöður liggja fyrir aðrar en þar sem fólust í rammasamkomulaginu. Hinsvegar er rétt að taka fram að þeir samningar sem er verið að gera þessa daganna taka mið af þeim ramma sem samþykktur var í samkomulaginu.
Síðustu daga hefur spunnist umræða í tengslum við SALEK um hækkun iðgjalds til lífeyrissjóða. Það er mikilvægt að hafa í huga að samið var um hækkun iðgjalds 2011 með ákveðnum skilyrðum. Hækkunin átti að koma í áföngum á tímabilinu 2014-2020. SA setti það skilyrði að það lægi fyrir samkomulag um samræmt lífeyriskerfi þ.e. að það sama myndi gilda á opinbera og almenna vinnumarkaðinum. Nú virðist vera að nást samkomulag um samræmingu sem felst m.a. í að hækka réttindi þeirra sem eru með lakari réttindi upp að þeim sem eru með betri réttindi. Það er mikilvægt að hafa í huga iðgjaldahækkun er hugsuð til að auka réttindi en ekki til að mæta áföllnum skuldbindingum.