Það ætti að komast gangur í viðræðurnar eftir helgi!

Í vikunni náðist samkomulag á milli ríkisins og SFR, sjúkraliða og Landssambands lögreglumanna. Með þessum samningi og samkomulagi sem er tengt við svokallaðan SALEK- hóp má segja að búið sé að leggja línurnar fyrir framhaldið ekki síst þar sem kjarasamningarnir virðast almennt fá góðar undirtektir hjá félagsmönnum. Ramminn sem búið er að smíða gerir ráð fyrir 32% hækkun á tímabilinu 2013 til loka árs 2018. Gera verður ráð fyrir að þessi rammi eigi líka við sveitarfélögin enda eru þau aðilar að SALEK-samkomulaginu.
Samninganefnd Samiðnar hefur átt fundi með samninganefnd ríkisins, Reykjavíkurborg og stofnunum þeim tengdum í þessari viku þar sem lögð hefur verið áhersla á að nýta næstu tvær vikur til að freista þess að ljúka samningum.
Ríkur vilji er til þess að vinnan fari á fulla ferð í byrjun næstu viku og næsti fundur er með samninganefnd ríkisins er kl. 13:30 n.k. mánudag. Við hjá Samiðn gerum ráð fyrir að samninganefnd ríkisins leggi fram tilboð á þeim fundi sem verði í takt við samningana sem gerðir voru við félög opinberra starfsmanna í vikunni.
Varðandi almenna markaðinn gerir SALEK-samkomulagið ráð fyrir að hann stilli sig inn í 32% rammann og gengið verði frá nýjum kjarasamningi fyrir febrúar n.k.
Gangi þetta allt eftir og okkur takist að ná sáttum um útfærslu á SALEK-samkomulaginu megum við vænta þess að í næstu samningalotu verðum við að vinna í gjörbreyttu umhverfi.