Frá miðjum ágúst hafa staðið yfir samningaviðræður við ríkið, sveitarfélög og tengdar stofnanir. Ekki er hægt að segja að árangurinn sé mikill eða áþreifanlegur. Þær hugmyndir sem þessir aðilar hafa um innihald nýs kjarasamnings eru langt frá þeim væntingum sem okkar fólk hefur og langt frá þeim samningum sem gerðir hafa verið við háskólamenn, kennara og lækna. Komin er upp sú staða að allir eru að bíða eftir öllum; ríkið bíður eftir niðurstöðu svokallaðs SALEK hóps sem er samstarfshópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin bíða eftir ríkinu og stofnanirnar bíða eftir að sveitarfélögin ljúki samningum og gefi svigrúmið.
Okkar krafa er að kjarasamningar við ríkið og sveitarfélög taki hliðstæðum breytingum og kjarasamningarnir við SA og beitt verði hliðastæðum aðferðum enda hefur ríkið gengið frá kjarasamningi við SGS og Eflingu á þeim nótum. Þrjú stærstu aðildarfélög BSRB hafa boðað verkföll n.k. fimmtudag og ef til verkfalla kemur geta þau dregist á langinn og ólíklegt að samið verði við aðra á meðan verkföllum stendur. Af þessu er ljóst að staðan er nokkuð þröng og óljóst hvert framhaldið verður.
Hins vegar er rétt að geta þess að þegar samningum var frestað s.l. vor var gengið frá samkomulagi um að nýir samningar giltu frá fyrsta maí ef samningar tækjust fyrir lok október. Þetta hefur verið ítrekað og gengið er út frá því að svo verði þrátt fyrir að samningar takist ekki fyrir lok október. Við skulum vera viðbúin að það geti dregist að gengið verði frá samningum ef til verkfalla kemur hjá opinberu félögunum. Ef afstýra á verkföllum verður eitthvað áþreifanlegt að gerast á næstu dögum, tíminn er naumur.