Aðildarfélögin heimsótt og haustfundur á Akureyri

Á hverju hausti hefur miðstjórn Samiðnar haldið vinnufund þar sem tekið er fyrir ákveðið málefni og fram fer almennt stöðumat. Að þessu sinni var fundurinn haldinn á Akureyri dagana 30. sept. og 1. október en á leið sinni norður heimsótti miðstjórnin aðildarfélögin í Borgarnesi, á Akranesi, Blönduósi og Sauðárkróki. Fulltrúar Þingiðnar á Húsavík komu til fundarins á Akureyri auk fulltrúa frá Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri og Byggiðnar. Á þessum fundum með aðildarfélögunum voru nýgerðir kjarasamningar ræddir og metnir og skipst á skoðunum um hugmyndir um vinnumarkaðslíkan í anda þess sem er við lýði á hinum Norðurlöndunum. Þessir fundir voru í senn upplýsandi og gefandi þar sem miðstjórninni gafst tækifæri til að kynnast þeim verkefnum sem hvert og eitt stéttarfélag er að sinna. Einnig gafst einstakt tækifæri til að fá frekari innsýn í starfskjör okkar félagsmanna á hverjum stað.
Síðari dagurinn á Akureyri fór að mestu í að ræða hugsanlegt vinnumarkaðslíkan en þrír fyrirlesarar komu til fundarins ásamt formanni Samiðnar en þeir voru Hannes Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri SA, Björn Snæbjörnsson formaður SGS og Ólafur Darri Andrason deildarstjóri hjá ASÍ. Hér er um stórmál ræða sem snertir allan vinnumarkaðinn og mikilvægt að vel takist til við allan undirbúning. Í því felst að tryggja þarf að umræðan nái til grasrótarinnar en verði ekki eingöngu meðal sérfræðinganna. Miðstjórn vill þakka öllum sem tóku þátt í fundunum og ekki síður aðildarfélögunum sem heimsótt voru fyrir frábærar móttökur.