Samiðn undirritaði kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins þann 22. júní s.l. sem allir voru samþykktir nema hjá Félagi járniðnaðarmanna á Ísafirði sem felldi samninginn í atkvæðagreiðslu. Samningurinn við Félag pípulagningameistara var einnig felldur en félagið stendur utan við Samtök atvinnulífsins. Nú hefur verði gert samkomulag við báða þessa aðila sem félagsmenn hafa samþykkt í almennum atkvæðagreiðslum og eru því komnir á kjarasamningar sem gilda frá 1. maí s.l.
Nú eru hins vegar að hefjast viðræður við ríki, sveitarfélög, Reykjavíkurborg, orkufyrirtækin og fleiri stofnanir og fyrirtæki sem ekki falla undir almenna markaðinn. Þessa dagana er verið að halda fyrstu fundi og opna viðræðurnar. Ljóst er niðurstaða gerðardóms í máli BHM og hjúkrunarfræðinga mun hafa áhrif á þessa samninga því engin rök er fyrir mismunun.
Allt kapp verður lagt á að ljúka samningsgerðinni í september en samkomulag er um að samningar gildi frá 1. maí semjist fyrir lok september.
Þegar laun iðnaðarmanna hjá hinu opinbera er borin saman við almenna vinnumarkaðinn vantar töluvert upp á að hægt sé að tala um sambærileg kjör en verulega hallar á þann opinbera. Markmiðið í komandi kjarasamningum er að stíga áþreifanlegt skref til þess að jafna kjörin milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins og gera þann opinbera samkeppnisfærari um vinnuaflið. Á meðfylgjandi mynd má sjá samninganefnd Samiðnar með fulltrúum Strætó.