Gerðardómurinn sem birtur var s.l föstudag í deilu BHM og FÍH er athyglisverður og hlýtur að hafa áhrif á kjarasamninga sem ólokið er við ríki og sveitarfélög. Samtök iðnaðarmanna hafa lagt áherslu á að iðnnám sé metið við ákvörðun um laun og því má segja að efnislega taki dómurinn undir þá skoðum með ákvæði um sérstakt álag vegna menntunar. Iðnaðarmenn sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum hafa gert alvarlegar athugasemdir við uppsetningu á launatöflum hjá ríki og sveitarfélögum ekki síst hvað þeim er þjappað saman og bil milli flokka er lítið. Dómurinn tekur með afgerandi hætti á þessu og kveður á um að bil milli flokka skuli vera 5% og milli þrepa 2,5%. Iðnaðarmenn hafa haft efasemdir um stofnanasamninga sem gerðir eru innan hverrar stofnunar vegna þess að þeim hefur ekki fylgt fjármagn. Dómurinn fjallar um þetta atriði og telur að leggja eigi aukna rækt við stofnanasamninga en þeim verði að fylgja fjármagn ef það á að vera mögulegt að ná þeim markmiðum sem þeim er ætlað þ.e. að auka valddreifingu og umbuna starfsmönnum fyrir góðan árangur í starfi.
Það er margt fleira sem kemur fram í dómnum sem er áhugavert en það sem stendur upp úr er að það skuli hafa þurft gerðadóm til að taka á málum sem lengi hafa verið upp á borði samningsaðila. Það vekur upp spurningar um þessar hefðbundnu leiðir sem viðhafðar eru við samningsgerðina. Reynslan segir að það sé mjög erfitt að ná fram nauðsynlegum breytingum þrátt fyrir að öll rök kalli á slíkar breytingar. Sem dæmi má nefna að þau kjör sem iðnaðarmönnum bjóðast hjá ríki og sveitarfélögum hamla því að þau geti fengið faglærða menn til starfa. Þrátt fyrir að þetta hafi öllum verið ljóst um langan tíma er engin samstaða er um að taka á þessum vanda og allt er óbreytt samning eftir samning. Kannski lærum við eitthvað af dómnum ????
Á næstu vikum munu samningsaðilar ganga til þess að gera nýjan kjarasamning og óhjákvæmilega verður gerðardómurinn hafður til hliðsjónar. Þau rök sem liggja að baki dómnum eiga einnig við um kjör iðnaðarmanna sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum.