„Látum af þeim ósið að almennt launafólk þurfi að vinna mikla yfirvinnu til að geta boðið sér og sínum mannsæmandi lífskjör“

Í ræðu Hilmars Harðarsonar, formanns Samiðnar á Ingólfstogi í dag, hvatti hann atvinnurekendur og stjórnvöld til að horfast í augu við að almenningur og sérstaklega ungt fólk, sættir sig ekki við að búa við lakari lífskjör en bjóðast á nágrannalöndunum.  Ungt fólk þarf að geta stofnað heimili og lifað mannsæmandi fjölskyldulífi á dagvinnulaunum.

Ræðuna má sjá hér að neðan.

Ágætu félagar – til hamingju með baráttudaginn okkar – 1. maí.
Við höldum upp á 1. maí nú þegar fjölmennir hópar launafólks hafa boðað til verkfalla til að fylgja eftir réttlátum kröfum sínum um bætt kjör. Sumir hafa reyndar þegar hafið verkföll og eru þeim sendar samstöðu- og baráttukveðjur.

Eins og skáldið sagði, þá bendir margt til að framundan séu erfiðir tímar og atvinnuþref. Fleiri stéttarfélög munu á næstunni greiða atkvæði um hvort þau muni einnig beita verkfallsvopninu. Það er mikilvægt að launþegahreyfingin sýni góða samstöðu og eindrægni í þessum átökum sem geta átt eftir að harðna enn. Ég vil eindregið hvetja alla launamenn til þess að láta að sér kveða innan síns verkalýðsfélags, kynna sér umræðuna og kröfugerðina og láta í sér heyra og taka þátt í þeim atkvæðagreiðslum sem fram fara í verkalýðsfélögunum.

Góðir félagar.Jöfnuður býr til betra samfélag! – Það eru einkunnarorð verkalýðshreyfingarinnar 1. maí að þessu sinni. Baráttudagur verkalýðsins á sér yfir 90 ára sögu. Á þeim tíma hefur mikið áunnist. Land okkar var í hópi hinna fátækustu í Evrópu en nú er öldin önnur. Við skulum hafa í huga að þrátt fyrir hrunið og erfiðleika síðustu ára getum við enn borið höfuðið hátt gagnvart flestum löndum í Evrópu. Við skulum líka hafa í huga að það velferðarkerfi sem við höfum alist upp við – og viljum standa vörð um – varð ekki til af sjálfu sér. Það varð til vegna baráttu öflugrar launþegahreyfingar sem barðist fyrir jöfnuði og því að allir fengju sinn skerf af verðmætasköpuninni í landinu. 

Jöfnuður býr til betra samfélag! – Þetta eru ekki einkunnarorð dagsins í dag að tilefnislausu. Við höfum verið minnt á það undanfarið að ójöfnuður fer nú vaxandi í landinu. Við – sem komin erum á miðjan aldur – ólumst upp í samfélagi – sem var vissulega ekki stéttlaust – en langflestar, pólitískar hreyfingar studdu bæði í orði og verki kröfu verkalýðshreyfingarinnar um jöfnun lífskjara og öflugt velferðarkerfi fyrir alla landsmenn.
En tímarnir hafa breyst.
Núverandi ríkisstjórn hefur það ekki á sinni verkefnaskrá að auka jöfnuð í landinu. Þvert á móti. Ríkisstjórnin hefur stytt tímabil atvinnuleysisbóta. Ríkisstjórnin hefur afnumið auðlegðarskatt. Ríkisstjórnin hefur hækkað matarskattinn. Aukið kostnaðarþátttöku sjúklinga og húsnæðismarkaðurinn er þannig að ungt fólk getur hvorki leigt né keypt sér húsnæði. Forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar sýnir að hagsmunir þeirra, sem búa við bestu kjörin, standa hjarta hennar nær en hagsmunir almennings. Það er vaxandi gjá milli lífskjara og lífsgæða þeirra sem hafa mest og hinna sem eiga minnst.
Áhrifamikill þingmaður talaði nýlega um að rétt væri að láta verkalýðshreyfinguna greiða skaðabætur fyrir að beita verkfallsrétti sínum.
Fjármálaráðherra landsins talar líka eins og hann vilji afnema verkfallsréttinn. Hann sagði eitthvað í þá veru á dögunum að það væri ekki rétt að þeir sem vilja knýja á um betri kjör hafi í höndunum jafnöflugt vopn og verkfallsréttinn.
Við skulum láta framgöngu núverandi stjórnvalda og þessi forneskjulegu viðhorf minna okkur á mikilvægi samtakamáttar launafólks – mikilvægi þess að við stöndum þétt saman og berjumst fyrir bættum kjörum – mikilvægi þess að hér starfi öflug og vel skipulögð verkalýðshreyfing sem berst fyrir bættum kjörum alls almennings.

Það kostar baráttu að bæta kjörin.
Jöfnuður býr til betra samfélag og samfélag jöfnuðar er þess virði að fyrir því sé barist – hvort sem núverandi stjórnvöldum líkar það betur eða verr. Í samfélögum þar sem jöfnuður ríkir lifir fólk lengur, það býr við betri heilsu og félagslega stöðu heldur en í samfélögum sem búa við ójöfnuð eins og þann sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru að skapa hér á landi.
Góðir félagar. Við ætlum okkur að ná árangri í þeirri hörðu kjarabaráttu sem nú stendur yfir.
Markmið okkar hlýtur að vera það að ungt fólk geti lifað eðlilegu og mannsæmandi fjölskyldulífi af dagvinnulaunum í íslensku samfélagi. Við eigum að snúa baki við þeim ósið að almennt launafólk þurfi að vinna mikla yfirvinnu til að geta boðið sér og sínum mannsæmandi lífskjör.
Við eigum að horfa til nágrannalanda okkar og ekki sætta okkur við þann mun sem er á almennum lífskjörum þar og hér.
Allt of stór hluti af mánaðarlaunum okkar er fenginn með ýmis konar aukavinnu- og álagsgreiðslum. Við þurfum að leggja áherslu á að hækka dagvinnulaunin og færa dagvinnutaxtana nær greiddu kaupi.
Stórir hópar íslenskra launamanna hafa bætt lífskjör sín umtalsvert á síðustu árum með því að flytja til nágrannalandanna og vinna þar styttri vinnudag fyrir mun hærri laun.
Við þekkjum flest fjölskyldur sem leitað hafa eftir atvinnu erlendis. Þar á meðal er stór hópur fólks sem hefur aflað sér menntunar í iðn- og tæknigreinum.
Við vitum að starfskraftar íslensks launafólks eru eftirsóttir bæði í Noregi og víðar. Fólk með íslenska iðn- og tæknimenntun á til dæmis jafn auðvelt með að fá vinnu í Noregi og íslenskt heilbrigðisstarfsfólk.
Þetta er staða sem íslenskt samfélag þarf að taka alvarlega. Ungt fólk í dag hefur val. Það mun ekki sætta sig við það til lengdar að búa í landi sem getur ekki boðið sambærileg lífskjör og bjóðast í nágrannalöndunum.
Samtök atvinnulífsins tala mikið um að ástæðan fyrir því að lífskjör launafólks eru lakari á Íslandi en í nágrannalöndunum sé sú að framleiðni er léleg á Íslandi.
En atvinnurekendur í nágrannalöndunum hafa ekki áhyggjur af því að framleiðni íslensks starfsfólks sé léleg. Þeir keppast um að ráða íslenskt fólk til starfa.
Dagvinnulaunin á Íslandi eru að meðaltali 30% lægri en á Norðurlöndunum hjá almennum starfsmönnum. Þá er búið að taka tillit til verðlags og eftir stendur 30% munur.
Laun íslenskra stjórnenda eru hins vegar 5% HÆRRI heldur en laun stjórnenda á Norðurlöndunum að meðaltali. Samt reka stjórnendur hér á landi fyrirtæki þar sem framleiðni er ekki samkeppnishæf við framleiðni í nágrannalöndunum.
Ef það er framleiðnivandi í okkar atvinnulífi þá er sá vandi afleiðing þess að stjórnun íslenskra fyrirtækja stenst ekki samkeppni við stjórnun fyrirtækja í nágrannalöndunum.
Og það skýtur skökku við að stjórnendur, stjórnarmenn og eigendur fyrirtækja virðast alltaf geta réttlætt fyrir sjálfum sér að auka greiðslur til sjálfra sín umfram það sem þeir telja sig geta hækkað laun launafólks.
Síðast fréttist að stórfyrirtækin HB Grandi og VÍS hefðu hækkað stjórnarlaun um 33% annars vegar og 75% hins vegar. Eigendur taka gríðarlega háar arðgreiðslur út úr fyrirtækjunum.
Nei, góðir félagar. Kjörorð okkar í dag er: Jöfnuður býr til betra samfélag.
Sá tími er liðinn að það sé hægt að bjóða íslensku launafólki upp á umræðu um að vandamálið sé of lítil framleiðni í atvinnulífinu og þess vegna sé ekki meira til skiptanna en 3,5% hækkun – og íspinni í bónus..

Verkalýðshreyfingin er ekki að fara að ganga til samninga um slíka niðurstöðu. Það þarf ekkert að ræða það.
Krafa okkar er sú að ungt fólk, sem er að hefja lífsbaráttuna á Íslandi, geti stofnað eigin heimili og lifað mannsæmandi fjölskyldulífi af dagvinnulaunum. Það er kominn tími til að taka stórt skref í þá átt í þeim kjarasamningum sem við ætlum okkur að ná í þessari lotu.
Við sem störfum í iðn- og tæknigreinum gerum líka kröfu um umbætur í menntunarmálum. Iðn- og verkmenntun á Íslandi þarf að eignast fagháskólastig eins og starfar á hinum Norðurlöndunum og er hluti af almenna skólakerfinu. Starfsmenntun og iðnmenntun hefur allt of lengi verið afgangsstærð í okkar skólakerfi. Sú þekking og raunfærni sem iðnaðarmenn öðlast í námi og starfi er ekki metin að á sama hátt og gert er í nágrannalöndunum. Núverandi kerfi er letjandi og sóar tíma þeirra sérfræðinga í iðn- og tæknigreinum sem vilja bæta við sig menntun. Þessu þarf að breyta og lausnin er fagháskólastig sem er að öllu leyti samhæft við skólakerfið að öðru leyti.

Góðir félagar. Minnumst þess á þessum baráttudegi verkalýðsins að Jöfnuður býr til betra samfélag og stöndum þétt saman. Við sendum baráttukveðjur héðan frá fundi okkar til þeirra félaga okkar sem boðað hafa til aðgerða til að fylgja sínum kröfum eftir. Við hvetjum launafólk um land allt til að taka virkan þátt í þeirri baráttu sem við eigum fyrir höndum. Munum að samstaðan mun skila okkur á áfangastað.