Við berjumst fyrir réttlátu samfélagi og viljum tryggja öllum jöfn tækifæri

Haldnir hafa verið þrír formlegir fundir undir stjórn sáttasemjara eftir að SA vísaði kjaradeilu iðnaðarmannasamfélagsins til sáttasemjara. Þrátt fyrir að fundirnir hafi litlu skilað hefur viðræðum ekki verið slitið. Á fundinum í gær gerði sáttasemjari tillögu um að settur yrði á laggirnar vinnuhópur til að skoða vinnutíma og kauptaxtakerfi. En eins og kunnugt er hafa iðnaðarmenn lagt mikla áherslu á að markvist verði unnið að því að dagvinna dugi til framfærslu og kauptaxtakerfið endurspegli markaðslaun eins og þau eru á hverjum tíma.
Á fundi iðnaðarmannasamfélagsins í morgun var ákveðið að bregðast jákvætt við tillögu sáttasemjara og taka næstu viku í að láta reyna á hvort raunverulegur vilji sé til að taka áþreifanleg skerf í átt að framgreindum markmiðum. Jafnframt var ákveðið að skili þessar viðræður engu verði þeim væntanlega slitið.
Á fundinum í morgun var einnig farið yfir hvernig undirbúningi að aðgerðum stendur, bæði hvað varðar form á hugsanlegum aðgerðum og tímasetningar ef til þeirra kemur.
Tveir hópar eru að störfum annar er að vinna við undirbúning kynningar- og upplýsingastarfs og hinn vinnur við uppsetningu á aðgerðaráætlun og samræmingu á reglum verkfallssjóða stéttarfélaganna.
Einnig er farin í gang vinna við að gera kjörskrá klárar ef kjósa þarf um verkfall.
Af þessu má sjá að iðnaðarmannasamfélaginu er ekkert að vanbúnaði að grípa til aðgerða með skömmum fyrirvara ef viðræður fara ekki að skila árangri.

1. maí

Á morgun er fyrsti maí, baráttudagur verkafólks. Það er hægt að fullyrða að aðstæður nú eru mjög sérstakar, stór hluti íslenskra stéttarfélaga eru annað hvort komin í verkföll eða á leiðinni í átök á næstu vikum ef viðræður fara ekki að skila árangri. Það er því full ástæða til að hvetja félagsmenn um land allt til að sýna samstöðu og taka virkan þátt í kröfugöngum og baráttufundum dagsins.
Góð þátttaka í aðgerðum morgundagsins eru skilaboð til atvinnurekenda og stjórnvalda um að íslenskir launamenn ætli ekki að sætta sig við vaxandi ójöfnuð og takmarkalausa auðsöfnun lítils hóps fólks.
Við viljum byggja réttlátt samfélag þar sem öllum eru tryggð jöfn tækifæri án tillits til efnahags eða búsetu.
Látum kröfur okkar um gott og réttlátt samfélag hljóma um land allt á morgun og sýnum að við erum afl sem er tilbúið að láta sverfa til stáls þegar okkur er misboðið og réttlætið fótum troðið.