Þolinmæði fólks er á þrotum

Fátt bendir til að páskahátíðin hafi breytt miklu varðandi endurnýjun kjarasamninga. Afstaða SA og ríkisstjórnarinnar er óbreytt varðandi launahækkanir og því situr allt fast. Að öllu óbreyttu stefnir í víðtækustu verkfallsaðgerðir um langt árabil og er hætt við að þær verði bæði víðtækar og langvinnar. Til að hægt sé að afstýra því að samfélagið logi endanna á milli í verkföllum verða viðsemjendur að fara að átta sig á stöðunni og gera sér grein fyrir afleiðingum þess að mæta í engu sanngjörnum kröfum launamanna.
Það hefur aldrei skilað góðum árangri í samningaviðræðum að segja bara nei nei og hlusta ekki á það sem hinn aðilinn hefur að segja eins og raunin er nú.
Kjarasamningar ganga út á að finna sameiginlegan flöt sem báðir aðilar geta sætt sig við en troða ekki einni skoðun ofan í kokið á viðsemjendum eins og nú virðist ætlunin að gera.
Nú verða viðsemjendur að fara að átta sig á að almenningur sættir sig ekki lengur við þau laun sem greidd eru hér á landi sem eru ekki í neinu samræmi við það sem þekkist í nágrannalöndunum fyrir sambærileg störf.
Almenningur sættir sig ekki lengur við þá misskiptingu sem viðgengst og fer vaxandi.
Almenningur sættir sig ekki við að stjórnarmenn í fyrirtækjum hafi hærri stjórnarlaun fyrir að sitja einn fund á mánuði en mánaðarlaun almennra starfsmanna.
Almenningur sættir sig ekki við að á Íslandi séu greidd laun sem ekki er hægt að lifa á.
Almenningur sættir sig ekki við þær miklu tekjutengingar sem viðgangast í velferðakerfinu og heldur fjöldanum við hungurmörk.
Almenningur kallar eftir réttlátri skiptingu þeirra gæða sem eru til skiptana og hafnar því að það eigi að vera einhverjir sér útvaldir gæðingar sem deila út sameiginlegum gæðum þegar þeir eru búnir að fylla alla sína vasa.
Í kjarasamningunum er tekist á um þessa skiptingu gæðanna og hvort við viljum hafa almenna velsæld í landinu eða hér eigi að búa fámenn auðstétt og stærsti hluti þjóðarinnar búi við lífskjör sem ekki eru í samræmi við auðlegð þjóðarinnar og ekki í nokkru samræmi við það sem er í okkar nágrannalöndum.
Við Íslendingar búum við þau góðu skilyrði að við höfum næg gæði til að allir geta haft það gott, verkefnið er að skipta gæðunum á réttlátan hátt.
Ef ríkisvaldið og atvinnurekendur neita að horfast í augu við þann veruleika sem við blasir og stefna vinnumarkaðnum í átök verða þau umfangs meiri en við höfum þekkt um margra áratuga skeið. Ábyrgð atvinnurekenda og ríkistjórnar er því mikil.
Ef það verður niðurstaðan að landið verði meira og minna undirlagt í verkföllum næstu vikur er orsökina að finna í taktleysi samtaka atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar sem neita að horfast í augu við raunveruleikann en kjósa í staðinn að stinga höfðinu í sandkassa og stunda lögfræðileiki fyrir Félagsdómi.
Enn hafa atvinnurekendur og ríkisstjórn þó tækifæri til að spila rétt og koma samningaviðræðunum af stað en til þess að svo geti orðið verða þeir að leggja fram tillögur sem mæta réttlátum kröfum almennings.
Hins vegar ættu öllum að vera orðið ljóst að tíminn styttist sem atvinnurekendur og ríkisstjórnin hafa til að leika sér að fjöreggi þjóðarinnar. Komi ekkert nýtt frá þessum aðilum á allra næstu dögum er ekkert annað í spilunum en að landið verði undirlagt í verkföllum næstu vikurnar.
Ábyrgðin er öll hjá atvinnurekendum og ríkisstjórn.